Home / Fréttir / Bretar leita á náðir bandamanna vegna kafbátaleitarvéla

Bretar leita á náðir bandamanna vegna kafbátaleitarvéla

 

Rússneskur kafbátur undan strönd Bretlands.
Rússneskur kafbátur undan strönd Bretlands.

Bretar verða að leita til Frakka og annarra bandamanna sinna innan NATO til að geta haldið uppi eftirliti á hafsvæðum við Bretlandseyjar gegn rússneskum njósnaleiðöngrum þangað sagði í The Telegraph fimmtudaginn 27. júlí.

Erlendum flota-eftirlitsflugvélum á breskum flugvöllum hefur fjölgað um 76% milli ára segir í gögnum breska varnarmálaráðuneytisins.

Flugvélar frá NATO-ríkjum voru 37 sinnum í flugherstöðinni Lossiemouth skammt frá Inverness í Skotlandi á árinu 2016. Verkefni þeirra var að fylgjast með erlendum skipum og kafbátum og stunda þjálfunaræfingar. Á árinu 2015 voru slíkar vélar 21 sinni í flugherstöðinni.

Bretar eiga ekki neina kafbátaleitarvél sjálfir eftir að þeir lögðu Nimrod-þotunum árið 2010. Tilraunum Rússa til að fylgjast með ferðum breskra kjarnorkukafbáta sem eiga heimahöfn í Skotlandi hefur fjölgað.

Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að verja þremur milljörðum punda til að kaupa níu nýjar kafbátaleitarvélar af gerðinni Boeing P8 Poseidon og fær breski flugherinn þær árið 2020. Þangað til verða Bretar að treysta á samvinnu við bandamenn sína sem ráða yfir eftirlitsflugvélum.

Sir Gerald Howarth, varnarmálaráðherra þegar Nimrod-þotunum var lagt, segir nú við The Telegraph: „Ég lá ekkert á þeirri skoðun að þetta væri stórhættuleg ákvörðun sem gerði okkur berskjaldaða.“

Á árinu 2016 fóru 20 bandarískar flugvélar í eftirlitsferðir frá Bretlandi auk átta kanadískra, fimm franskra, þriggja þýskra og einnar norskrar. Árið 2015 voru 11 vélar bandarískar, þrjár kanadískar, fimm franskar og tvær þýskar.

Breska varnarmálaráðuneytið segir að 20% erlendu vélanna í Skotlandi sinni eftirliti á bresku hafsvæði en 80% af tíma vélanna nýtist til æfinga og þjálfunar meðal annars með þátttöku breskra flugmanna sem búa sig undir komu P8-vélanna árið 2020.

.

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …