Home / Fréttir / Bretar herða enn andstöðu við ESB-her eftir sigur Trumps

Bretar herða enn andstöðu við ESB-her eftir sigur Trumps

 

Donald Trump flytur sigurræðu sína.
Donald Trump flytur sigurræðu sína.

Sir Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, verður mánudaginn 14. nóvember á fundi með starfsbræðrum sínum ESB. Að sögn Telegraph.co.uk ætlar hann að hvetja þá til að falla frá öllum áformum um ESB-herafla og leggja sig þess í stað fram um að efla NATO.

Fallon ætlar að rökstyðja mál sitt með því að vísa til þess sem Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, sagði í kosningabaráttunni sem lauk með sigri hans þriðjudaginn 8. nóvember. Trump gagnrýndi NATO-bandamennina fyrir að standa ekki við þá skuldbindingu sína að auka útgjöld til varnarmála svo að þau nemi 2% af landsframleiðslu.

Trump gaf til kynna að yrði hann forseti væri ekki útilokað að Bandaríkjastjórn hafnaði beiðni um aðstoð frá NATO-ríkjum sem stæðu ekki í skilum eða virtu ekki „skuldbindingar sínar gagnvart okkur“.

Árið 2015 stóðu Bandaríkjamenn undir 72% útgjalda NATO og þeir eru í hópi sjö NATO-þjóða af 28 sem standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Hin sex ríkin eru Bretland, Eistland, Frakkland, Grikkland, Pólland og Tyrkland. Fyrir utan Ísland greiða þrjú ríki undir 1% af landsframleiðslu til varnarmála: Belgía, Lúxemborg og Ungverjaland.

Heimildarmaður The Telegraph innan breska stjórnarráðsins sagði að sigur Trumps „hvetti“ Breta til að ýta á aðrar ESB-þjóðir vegna hækkunar útgjalda til varnarmála.

Heimildarmaðurinn sagði:

„Bandaríkjamenn hafa jafnan sagt að þeir sætti sig við að leggja meira af mörkum en allir aðrir til NATO.  Segi nýja stjórnin að nú verði aðrir að hysja upp um sig hefur það sín áhrif. Þá er einnig til hins að líta að í Evrópu verða menn að huga meir að öryggismálum en áður. Hnattrænu vandamálin eru meiri en strax eftir kalda stríðið.“

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði fimmtudaginn 10. nóvember að sigur Trumps hvetti til að hugað yrði enn frekar að áformum sínum um ESB-her. Juncker sagði:

„Við eigum Bandaríkjamönnum mikið að þakka en þeir tryggja ekki öryggi Evrópubúa til langframa. Við verðum að gera það sjálf. Þess vegna þurfum við að hefjast að nýju handa á sviði evrópskra varna og stefna að því að koma á fót Evrópuher.“

Stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi vilja nota úrsögn Breta úr ESB til að efla ESB-varnarasamvinnu sem Bretar hafa hafnað um langt árabil.

Í kosningabaráttunni sagði Donald Trump meðal annars: „Það má ekki gleyma reikningunum. Þeim er skylt að inna greiðslu af hendi. Margar NATO-þjóðir borga ekki, gera ekki það sem þeim er ætlað að gera. Það er stórmál. Hafa þær staðið við skuldbindingar sínar gagnvart okkur? Hafi þær gert það er svarið já [við því hvort þær gæti treyst á stuðning Bandaríkjamanna].“

Þegar þessi orð Trumps féllu gagnrýndi Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, þau. Hann sagði: „Öryggisábyrgð NATO er fest í sáttmála. Öll aðildarríkin hafa hátíðlega lýst vilja til að verja hvert annað. Þetta er algjörlega fyrirvaralaust.“

Þá hafa ráðamenn í Evrópu nokkrar áhyggjur af viðhorfi Trumps til Rússa, hann sýni þar of mikla vinsemd. Frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga í mars 2014 hafa Bandaríkjastjórn og evrópskir bandamenn hennar tekið harðnandi afstöðu gegn Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Trump hefur lýst Pútín sem „sterkum“ leiðtoga og vill ræða við hann til að binda enda á átökin í Sýrlandi.

Heimildarmaður innan breska stjórnarráðsins sagði við The Telegraph laugardaginn 12. nóvember: „Aðdáun hans [Trumps] á Pútín sem sterkum karakter er áhyggjuefni og menn verða að leggja sig fram um að skýra fyrir honum staðreyndir lífsins. Sumir eru þeirrar skoðunar að eftir að hann kemst í Hvíta húsið brjóti hann odd af oflæti sínu og verði ekki alveg eins bilaður. Verst er að fólk efast og óttast vegna þess að hann er óþekkt stærð.“

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …