Home / Fréttir / Bretar herða djúpsjávareftirlit af ótta við skemmdarverk Rússa

Bretar herða djúpsjávareftirlit af ótta við skemmdarverk Rússa

Bretar hafa sent freigátuna HMS Somerset til að aðstoða Norðmenn við gæslu grunnvirkja í undirdjúpunum.

Breski flotinn ætlar tafarlaust að festa kaup á nýju skipi sem getur sent frá sér dróna til eftirlits neðansjávar og greint það sem kynni að ógna strengjum eða leiðslum á hafsbotni. „Ég þarf svona skip núna,“ sagði Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, þegar hann var spurður um skjótar ákvarðanir um skipakaupin.

Skipinu verður breytt svo að það verði betur til þess fallið en nú að veita vörn gegn vaxandi undirdjúpaógn frá Rússum eftir að grunsemdir vöknuðu um að þeir hefðu staðið að árásinni á Nord Stream gasleiðslurnar á botni Eystrasalts.

Í samtali við The Telegraph þriðjudagurinn 4. október gekk Wallace ekki svo langt að kenna Rússum um gasleiðslu-árásina, hann sagði hins vegar að þar hefði verið um „ásetningsverk“ að ræða.

Ráðherrann sagði að veruleg hætta steðjaði að Bretum vegna neðansjávar-skemmdarverka vegna þess hve háðir þeir væru net-strengjum. Þeir yrðu að leggja í mikla vinnu við athugun á öryggi þessara grunnvirkja til að finna leiðir til að bægja hættunni frá bresku samfélagi.

Að kvöldi mánudags 3. október var breska freigátan HMS Somerset send út á Norðursjó til samstarfs við Norðmenn við öryggisgæslu við gasleiðslur þeirra. Þá er eftirlitsskipið HMS Enterprise einnig við eftirlitsstörf við Bretlandseyjar til verndar neðansjávar-grunnvirkjum.

Ætlun breska varnarmálaráðherrans er að kaupa tvö „fjölþætt eftirlitsskip“ sem fái enska heitið Seabed Warfare eða hafsbotnshernaðar skip. Er við það miðað að í lok næsta árs verði fyrra skipið komið til starfa.

Um borð í skipinu verður um sérhannaðan búnað að ræða, neðansjávar-dróna og annan nákvæman tæknibúnað í líkingu við þann sem er í rússneska smá-njósnakafbátnum Losharik og talinn er geta hlerað eða eyðilagt net-strengi.

Það tekur lengri tíma að smíða seinna skipið en hlutverk þess verður að safna upplýsingu í hafdjúpunum.

Ráðherrann segir að mánuðum og árum saman hafi rússnesk njósnaskip og önnur rússnesk skip sést á grunsamlegri siglingu í nágrenni við strengi og leiðslur Breta á hafsbotni.

Hann segir „ekkert leyndarmál“ að rússneski flotinn starfi samkvæmt sérstakri kafbátáætlun undir stjórn GUGI (Stofnun djúphafsrannsókna) við Olenja flóa við Barentshaf á Kólaskaga. Áætlunin snúi að mikilvægum grunnvirkjum í Norður-Atlantshafi.

Í samtalinu við ráðherrann er bent á að enn sé unnið að rannsókn á því hver stóð að sprengingum á Nord Stream gasleiðslunum í Eystrasalti 26. september, þær hafi orðið án þess að vestræn ríki hafi fengið nokkuð veður af þeim að sögn ráðherrans.

„Við fengum enga beina viðvörun um að þetta mundi gerast, ég held að enginn hafi fengið hana,“ segir Wallace.

„Hafi verið um markvissa og skaðvænlega aðgerð að ræða af hálfu óvinveitts ríkis verður [svarið] líklega skipulagt í gegnum NATO,“ sagði ráðherrann þegar hann heimsótti breska hermenn í Póllandi.

„Á vettvangi NATO verður að íhuga hvert svarið verður.“

Wallace sagði að ríkisstjórnir Danmerkur og Svíþjóðar rannsökuðu árásina á gasleiðslurnar sem sakamál.

„Lagalega gerðist þetta innan efnahagslögsögu bæði Svíþjóðar og Danmerkur en á alþjóðlegu hafsvæði. Hafi Rússar áhuga á að koma á vettvang og rannsaka málið – eða veita aðstoð ­– er ekki unnt að banna þeim það. Þeir geta einfaldlega mætt á svæðið, því skiptir miklu að hafa augun hjá sér.“

Varnarmálaráðherrann sagði hins vegar að ekki yrði tekið neinu boði Rússa um aðstoð bærist það.

„Mér finnst alltaf best að halda minknum fjarri hænsnabúinu,“ sagði hann við The Telegraph.

 

 

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …