
Bretar hafa hvatt NATO til að efna til æfinga með kjarnorkuvopnum vegna vaxandi ógnar frá Rússum segir í frétt The Daily Mail föstudaginn 9. október. Segir blaðið að breskir ráðherrar hafi til skoðunar tillögur sem kynnu að leiða til þess að Trident-kjarnorkukafbátum Breta er falið að taka þátt í æfingum með skipum annarra þjóða í fyrsta sinn frá lokum kalda stríðsins.
Kæmi til æfinganna yrðu þúsundir hermanna hvarvetna innan NATO-ríkjanna, flugvélar og skip virkjuð til að æfa átök sem þróast til heimsstyrjaldar og að lokum kjarnorkuhamfara.
Tilgangurinn með æfingu af þessu tagi er sagður að senda skýr skilaboð til Vladimírs Pútíns þess efnis að NATO-ríkin 28 séu búin undir að átökin í Sýrlandi og annars staðar magnist í hæstu hæðir.
The Daily Mail vitnar í samtal sem blaðamaður þess átti við Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, á varnarmálaráðherrafundi NATO í Brussel. Ráðherrann hafi sagt: „Við verðum að vita hvernig þau falla saman, kjarnorku- og venjuleg vopn.“
Blaðið segir að ummæli ráðherrans falli að orðum Sir Adams Thomsons, sendiherra Breta hjá NATO, sem sagði að kjarnorkuæfingar væru á dagskrá. Þetta væri til skoðunar í þeim tilgangi að efla fælingarmátt bandalagsins.
Sir Adam sagði: „Frá því að kalda stríðinu lauk hefur NATO efnt til æfinga með venjulegum vopnum og með kjarnorkuvopnum, það hefur hins vegar ekki verið æft hvernig tengslunum milli vopnakerfanna er háttað, það er þess vegna til athugunar.“
Bretar eiga fjóra kafbáta af Vanguard-gerð, þeir bera 16 samtals langdrægar eldflaugar. Kjarnaoddunum hefur ekki verið skotið í tilraunaskyni síðan 2012. Á síðasta ári skaut rússneskur kafbátur langdrægri eldflaug í tilraunaskyni.
Þrjú NATO-ríki, Bandaríkin, Bretland og Frakkland eiga kjarnorkuvopn. Nýlega tóku breskir stjórnmálamenn að ræða kjarnorkuvopn í tilefni af því að Jeremy Corbyn, nýr leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði að hann mundi aldrei samþykkja beitingu kjarnorkuvopna.