Home / Fréttir / Bretar hafa áhyggjur af nýjum rússneskum skriðdreka

Bretar hafa áhyggjur af nýjum rússneskum skriðdreka

 

Armata-skriðdrekar á hersýningu í Moskvu.
Armata-skriðdrekar á hersýningu í Moskvu.

Njósnastofnun breska hersins hefur birt varað við því að nýr skriðdreki Rússa valdi þáttaskilum og skapi herjum Vesturlanda vanda. Þetta kemur fram í skjali sem hefur verið lekið og blaðamenn The Sunday Telegraph hafa séð.

Í skjalinu birtast efasemdir breska varnarmálaráðuneytisins um að breski herinn geti staðist ógnina af nýja Armata-skriðdreka Rússa. Þar er því einnig velt fyrir sér hvers vegna bresk stjórnvöld hafi ekki áform um að smíða sambærilegan eða betri skriðdreka á næstu 20 árum.

Í skjalinu sem ætlað er að miðla upplýsingum innan breska varnarmálaráðuneytisins segir háttsettur njósnaforingi hersins: „Það er ekki orðum aukið að með Armata hefur orðið byltingarkenndasta breyting á hönnun skriðdreka í hálfa öld.“

Þá segir að skriðdrekinn hafi „valdið uppnámi“. Það veki undrun að í núgildandi varnaráætlunum Breta séu engin áform kynnt um smíði nýs skriðdreka sem geti keppt við Armata-skriðdrekann.

Á hersýningu í Moskvu í maí 2015 mátti í fyrsta sinn sjá sýningareintök af Armata-skriðdrekanum. Skýrsla njósnastofnunar breska hersins um skriðdrekann var samin í tilefni af því að hann sást á þessari hersýningu. Skriðdrekinn er talin valda þáttaskilum vegna hönnunar á skotturni hans sem dregur úr hættu fyrir áhöfn hans kvikni eldur í skriðdrekanum. Þá er hann léttari, hraðskreiðari og lægri en vestrænir skriðdrekar.

Í skjalinu kemur einnig fram að sett verði ratsjárkerfi í skriðrskriðdrekannekann, kerfi sem nú sé fullkomnustu orrustuþotum Rússa auk þess sem brynja drekans sé ný. Byssa hans er mjög hraðvirk og unnt er að setja fullkomið skotflaugakerfi um borð í hann.

„Hér er í fyrsta sinn um að ræða algjörlega sjálfvirkan, tölvuvæddan, mannlausan skotturn á stórum orrustu-skriðdreka. Þá er áhöfnin einnig í fyrsta sinn lokuð inni í brynvörðu hylki fremst í skrokki drekans,“ segir í skjalinu sem The Sunday Telegraph birtir 6. nóvember.

Rússneska varnarmálaráðuneytið tilkynnti í september 2016 að það hefði skrifað undir samning um afhendingu á fyrstu 100 Armata-skriðdrekunum. Talið er að síðar verði samið um 2.200 til viðbótar.

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …