
Í breskum fjölmiðlum er hæðst að flaggskipi rússneska flotans flugmóðurskipinu Admiral Kuznetsov sem sigldi í gegnum Ermarsund föstudaginn 21. október á leið sinni frá Kóla-skaga að strönd Sýrlands fyrir botni Miðjarðarhafs. Í The Daily Telegraph (DT) er laugardaginn 22. október bent á að skipið hafi árum saman verið þjakað af bilunum af ýmsu tagi og það fari aldrei á haf út án þess að dráttarbátur fylgi til bjargar ef til vandræða komi.
Sagt er að lagnakerfið sé svo úr sér gengið og lélegt um borð í Admiral Kuznetsov að stór hluti salerna skipsins séu ónothæfur. Vélarbilanir eru tíðar og mörg slys hafa orðið um borð að sögn sérfræðinga.
Í rússnesku flotadeildinni eru átta skip og er talið að vopnum skipanna og flugvélum verði beint gegn borginni Aleppó í Sýrlandi.
Þegar Admiral Kuznetsov sigldi fram hjá Dover á Englandi stóð svartur reykur upp úr strompi skipsins. Breski flotinn fylgdist með ferðum rússnesku skipanna en frá lokum kalda stríðsins hafa Rússar ekki sent jafnstóran herflota af stað til að sýna mátt sinn og megin.
DT segir að áhugamenn og sérfræðingar um flotamál hafi gert grín að rússnesku skipunum á samfélagsmiðlum. Þar hafi verið bent á hve lélegur allur búnaðar þeirra sé.
Heimildarmaður í breska flotanum sagði við blaðið: „Öll skip þeirra líta vel út að utan en eru frekar hrikaleg þegar inn er komið. Menn þurfa ekki annað en sjá reykinn sem skipið sendir frá sér til að átta sig á að eitthvað er ekki eins og það á að vera.
Af og til undanfarin 10 ár hafa menn frá okkur farið um borð í rússnesk herskip og þeir hafa jafnan orðið fyrir nokkru áfalli. Innan dyra er aðbúnaðurinn ansi dapurlegur.“
Peter Roberts, flotasérfræðingur hjá Royal United Services Institute, sagði: „Sjómenn tala gjarnan um óheillaskip og Kuznetsov er án vafa óheillaskip. Þetta er eitt þeirra skipa þar sem hönnunin var röng og allt hefur gengið á afturfótunum.“
Smíði við skipið hófst árið 1982 og flotinn tók við því árið 1990. Hann segir að frá þeim tíma hafi tæknileg vandamál hrjáð það. Vegna vélarbilana sé dráttarbátur alltaf í för með skipinu. Vatn frjósi í leiðslum þess um vetur. Til að koma i veg fyrir að pípurnar springi sé vatn einfaldlega tekið af kerfinu og því séu vaskar í klefum vatnslausir og einnig helmingur salerna.
Roberts sem starfaði áður sem foringi í breska flotanum segir við DT: „Ekkert veldur meiri depurð hjá skipherra en að hann geti ekki siglt skipi sínu út á sjó án þess að dráttarbátur fylgi af því að jafnvel æðsti yfirmaðurinn telur að skip manns verði vélarvana.“
Einn úr áhöfn skipsins fórst þegar eldur kviknaði um borð þegar skipið var í heimsókn í Tyrklandi árið 2009. Sama ár láku hundruð tonna af olíu úr skipinu á Írska hafi þegar olía var dælt um borð úr tankskipi.
Roberts segir að þrátt fyrir gallana geri skipið gagn. Það sé stórt, ábúðarmikið og flugvélar geti athafnað sig um borð í því, nú haldi það til stríðsátaka í Sýrlandi.