Home / Fréttir / Bretar efla hervarnir á norðurslóðum

Bretar efla hervarnir á norðurslóðum

Ben Wallace, .varnarmálaráðherra Breta, (tv) heilsar hermanni á æfingu í N-Noregi 29. mars 2022.

Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, kynnti nýja hernaðarlega norðurslóðastefnu (e. Arctic strategy) bresku ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í Norður-Noregi þriðjudaginn 29. mars. Odd Roger Enoksen, varnarmálaráðherra Norðmanna, var við hlið Wallace á fundinum og áréttaði með því hve miklu samvinnan við Norðmenn skiptir við framkvæmd nýju bresku stefnunnar.

„Norðurslóðir og áhrif loftslagsbreytinga hefur áhrif á okkur öll hvort sem okkur líkar það vel eða illa. Norður-Atlantshafið verður ávallt heimasvæði Breta og þess vegna er lífsnauðsynlegt að við styrkjum bæði samstarfshæfni hers okkar og samþættingu með herjum NATO-landa og samstarfslanda NATO á svæðinu,“ sagði breski varnarmálaráðherrann.

Norski varnarmálaráðherrann fagnaði nýrri stefnu Breta og sagði Norðmenn vilja meiri umsvif bandamanna sinna í norðri.

Í inngangsorðum stefnuskjalsins segir Ben Wallace að sé litið til sögunnar hafi norðurslóðir verið lágspennu svæði og Bretar vilji að svo verði áfram. Á hinn bóginn verði að líta til þess að minnkandi ís í norðurhöfum skapi í senn hættur og tækifæri. Hervæðing setji æ meiri svip á athafnir Rússa á svæðinu og Kínverjar standi þannig að því að skipuleggja fyrirhugaða silkileið um norðurhöf að mannvirkin geti hugsanlega gegn tvíþættu hlutverki. Þegar aðgengi að svæðinu aukist vaxi hættan á að þar gæti áhrifa af hættuástandi sem skapist annars staðar í heiminum.

Þegar færð eru rök fyrir stefnunni í skjalinu er minnt á að Bretar hafi náin tengsl við næstum allar norðurslóðaþjóðirnar og það sé á þeirra ábyrgð að aðstoða bandamenn sína og samstarfsþjóðir til að viðhalda stöðugleika og öryggi á svæðinu. Um margra ára skeið hafi þeir látið þar að sér kveða. Þeir muni leggja sig fram um að styðja regluverkið sem gildir um svæðið og uppbyggilega alþjóðlega samvinnu þar. Þeir ætli að vernda og sé það nauðsynlegt árétta rétt sinn gagnvart þeim sem vilja ekki sætta sig lögbundna skipan eða frelsi til siglinga á svæðinu eða grafa þar undan stöðugleika á annan hátt. Sem evrópsk forystuþjóð innan NATO séu Bretar búnir undir að verja bandamenn sína á norðurslóðum og bregðast við árás. Þeir muni snúast gegn skaðvænlegum athöfnum á svæðinu sem grafi undan stöðugleika og ógni breskum hagsmunum, öryggi íbúa á norðurslóðum og stöðugleika þar. Innan NATO hafi breskar varnir sérstakt hlutverk til verndar mikilvægum neðansjávar innviðum einstakra landa og til að tryggja athafnafrelsi á Norður-Atlantshafi, einkum í GIUK-hliðinu.

Þegar vikið er að tengslum við Ísland í stefnuskjalinu segir að æfingar Typhoon-orrustuþotna og loftrýmisgæsla muni enn frekar staðfesta ásetning Breta til varðstöðu á svæðinu. Bretar hafi árið 2019 sent Thyphoon-þotur til loftrýmisgæslu frá Íslandi og þar hafi sést að þeir leggi sitt af mörkum til gæslu öryggis á Grænland-Ísland-UK-svæðinu. Til að stuðla frekar að svæðisbundnu öryggi geti þeir nýtt RC-135W Rivet Joint flugvél og haldið áfram að senda vélar til loftrýmisgæslu frá Íslandi þegar henta þyki auk annarra NATO-verkefna þeirra við loftrýmisgæslu.

Þá er minnt á að breski flugherinn ráði yfir níu P8-A þotum til eftirlits á hafsvæðum. Nýtt verði tækifæri til að senda P8-A tímabundið til verkefna og þátttöku í æfingum á svæðinu í samvinnu við bandamenn eins og Norðmenn, Íslendinga og Bandaríkjamenn. Það megi einnig auka greiningu og mat á ástandinu í norðri með samvinnu við bandamenn um notkun P8-A-vélanna. Með því að halda úti F35 Lightning II orrustuþotum við hlið véla frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Bandaríkjunum fjölgi tækifærum til samhæfingar með bandamönnum og nánum samstarfsaðilum á svæðinu.

Um þessar mundir taka 2.000 breskir hermenn þátt í NATO-æfingunni Cold Response 2022 sem Norðmenn stjórna fyrir norðan heimskautsbaug. Bretar senda kafbát og sex herskip til þátttöku í æfingunni sem ekki hefur verið umfangsmeiri á norðurslóðum síðan á níunda áratugnum.

Til æfingarinnar var boðað löngu áður en Rússar réðust inn í Úkraínu. Hún er til marks um að um árabil hefur spenna verið að vaxa í öryggissamskiptum Rússa og Vestursins í norðri. Nýir, hljóðlátari rússneskir kafbátar a Yasen-gerð eiga auðveldara með að skjóta sér undan eftirlitskerfi NATO en eldri gerðir kafbáta. Þá æfir Norðurfloti Rússa ár frá ári nær GIUK-hliðinu (Grænlands-Íslands-UK-hliðinu). Svæðið frá Barentshafi að norðaustur horni Íslands er kallað brjóstvörn rússnesku kjarnorkukafbátanna sem sveima með langdrægar kjarnaflaugar í undirdjúpum norðurhafa. Þá skiptir þetta svæði einnig miklu þegar hugað er að liðsflutningum til Norður-Noregs á hættustund.

Það er mikilvægur þáttur í norðurslóðastefnu breska hersins að breskir hermenn stundi æfingar í Norður-Noregi. Bretar ætla að kosta rannsóknir og þróun búnaðar til að tryggja sem best varnarkerfi á svæðinu.

Bretar sendu glænýtt flugmóðurskip sitt HMS Prince of Wales til þátttöku í Cold Response 2022 æfingunni. Skipið hefur verið undan strönd Noregs í norðri og er væntanlegt næstu daga til hafnar í Reykjavík.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …