Home / Fréttir / Bretar búa sig undir harðar viðræður við Trump vegna Sýrlands og Pútíns

Bretar búa sig undir harðar viðræður við Trump vegna Sýrlands og Pútíns

Bashar al-Assad Sýrlandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti í Moskvu.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti í Moskvu.

Bretar standa frammi fyrir ágreiningi í utanríkismálum við Bandaríkjamenn vegna áforma Donalds Trumps um að gera bandalag við Vladimír Pútín til að styrkja stöðu ríkisstjórnar Sýrlands.

Þannig hefst frétt í breska blaðinu The Sunday Telegraph 13. nóvember.

Vísað er í breska embættismenn sem viðurkenna að Bretar verði að eiga „mjög erfiðar“ viðræður við verðandi forseta Bandaríkjanna á næstu vikum vegna afstöðu hans til Rússa.

Þetta sé ljóst eftir að Trump hafi notað fyrstu samtöl sín eftir sigurinn í kosningunum þriðjudaginn 8. nóvember til að gefa til kynna að hann muni falla frá stuðningi við uppreisnarmenn í Sýrlandi og til að þakka Vladimír Pútín fyrir að senda sér „fallegt“ bréf.

Trump sagði að hann mundi taka höndum saman við Rússa og einbeita sér að því að sigra Daesh (Ríki íslams). Hann hefur áður sagt að það yrði „fínt“ ef Bandaríkjamenn og Rússar gætu unnið saman að því að „senda Daesh til fjandans“.

Breska blaðið segir sjónarmið Trumps stangast alfarið á við það sem Theresa May, forsætisráðherra Breta, vilji. Hún hefur sakað ríkisstjórn Bashars al-Assads Sýrlandsforseta um „grimmdarlegt ofbeldi“ og sagt að til framtíðar verði að Sýrland að verða „án Assads“.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, hefur sakað Rússa um að fremja stríðsglæpi með því að myrða hundruð almennra borgara. Talið er líklegt að innan nokkurra vikna fari Johnson til Bandaríkjanna til viðræðna við háttsetta samstarfsmenn Trumps um nauðsyn þess að Assad verði vikið úr forsetaembættinu.

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …