Home / Fréttir / Bretar beita sérsveitum gegn ágangi Rússa

Bretar beita sérsveitum gegn ágangi Rússa

Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta.
Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta.

Breskar sérsveitir eiga að leggja sig fram um að leita uppi rússneska njósnara og útsendara úr rússenska hernum um heim allan bæði með opnum og leynilegum aðferðum.

Meðal sérgreindra aðgerða Breta vegna nýrra ógna er smíði sérhannaðs njósnaskips sem væntanlega verður við störf á Atlantshafi árið 2024. Áhöfn skipsins verður falið að finna og fylgjast með ferðum rússneska kafbátsins Losharik sem var smíðaður sérstaklega til að liggja á hafsbotni og hlera eða safna saman upplýsingum sem fara um marga neðansjávarstrengi á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Bretar eru ekki einir um að líta á þessa strengi sem einna viðkvæmustu fjarskiptaleið sína heldur eru flestar Evrópuþjóðir sömu skoðunar.

Um strengina fara ekki aðeins peningafærslur og fjármálaupplýsingar heldur einnig mikið af háleynilegum boðum milli vestrænna stjórnvalda sem Rússar fylgjast náið með að mati breska varnarmálaráðuneytisins. Þá er ætlun Breta að hafa auga með Belgorod sem er móðurskip Loshariks. Bretar hafa valið þessum nýja þætti í starfi hers síns og flota aðgerðarheitið: Nýja baráttan um Atlantshaf.

Nýja breska njósnaskipið er liður í umtalsverðum breytingum á breskum vörnum. Þær leiða meðal annars til þess að hermönnum fækkar um 10.000 og hætt verður að nota Hercules-flugvélar.

Í stað þess verður stórfé varið til að efna snjall-varnir, þar sem nettækni, drónar og hvers kyns eftirlit vegur þyngra en til þessa. Þar að auki koma nýir skriðdrekar til sögunnar og kjarnorkuvopnabirgðir á að stækka um 40%.

Í ný-endurskoðaðri varnarstefnu Breta er litið á Rússa og Kínverja sem höfuðfjandmenn. Þar er þó lýst áhuga á viðskiptum við Kínverja en Rússar sigla sinn sjó. Þá eru Íran og Norður-Kórea einnig flokkuð sem fjandsamleg ríki.

Breski varnarmálaráðherrann Ben Wallace sagði við The Telegraph þegar nýja stefnan var kynnt:

„Þegar ógnin breytist verðum við að breytast. Andstæðingar okkar líta á mikilvæg, berskjölduð grunnvirki samfélags okkar og þeir búa yfir afli til að ógna þessum grunnvirkjum. Við þurfum þess vegna að ráða yfir réttum búnaði til að upphefja þessa veikleika hvort sem er á landi, sjó eða í lofti. Við verðum að tryggja að getum veitt þeim viðnám sem vilja vega að okkur. Við stöndum ávallt á gráu svæði milli stríðs og friðar. Þess vegna er brýnna en nokkru sinni að hindra átök.“

Til þessa hafa leyniþjónustustofnanirnar MI6 og GCHQ einkum sinnt ógnum frá fjandsamlegum ríkjum. Nú er ætlunin að fela sérsveitum innan hersins að glíma við mikið af þessum verkefnum. Þar má nefna SAS-sveitirnar –Special Air Service – sem komið var á fót í síðari heimsstyrjöldinni. Liðsmenn þeirra hafa verið sendar inn á óvinasvæði, handan víglínunnar, til dæmis í Írak og Afganistan. Á friðartímum nýtast SAS-sveitir einkum í átökum við hryðjuverkamenn. Þótt hermenn eigi að koma meira við sögu en áður verða tengslin milli þeirra og leyniþjónustunnar mjög mikil.

SAS-hermönnum verður til dæmis beitt gegn útsendurum frá GRU, njósnastofnun rússneska hersins. GRU-menn láta að sér kveða um heim allan og Bretar vilja ekki að þeim takist að endurtaka leikinn frá Salisbury á Englandi árið 2018 þegar þeir gerðu eiturárás á landflótta, fyrrverandi rússneskan njósnara, Sergei Skripal, og dóttur hans. Breska lögreglan sagði að þar hefðu Rússarnir Ruslan Boshirov og Alexander Petrov verið að verki. Þeir sáust á eftirlitsmyndavélum á Fisherton Road í Salisbury en sögðust vera ferðamann að skoða frægu dómkirkjuna í Salisbury.

Breski utanríkisráðherrann, Dominic Raab, hefur kynnt ný áform Breta fyrir bandamönnum þeirra innan NATO. Þar lýsti hann Rússum sem ógn við lýðræði og opin samfélög. Hann varaði einnig við nýjum flugskeytakerfum Rússa og netárásum af þeirra hálfu að tilstuðlan stjórnvalda.

 

 

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …