
Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, tilkynnti fimmtudaginn 8. október að Bretar mundu halda stöðugt úti herafla í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi og leggja aukna áherslu á þjálfunarverkefni með her Úkraínu.
Ráðherrann skýrði frá þessu á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna í Brussel. Hann sagði að nokkur undirfylki (100 til 150 menn) yrðu reglulega í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi sem öryggistrygging og til aðstoðar við þjálfun.
Hinn nýi liðsafli Breta bætist við sveitir úr flughernum sem hafa mannað Typhoon-orrustuþotur við loftrýmisgæslu í löndunum þá tengjast undirfylkin einnig samstarfsverkefni herja Bandaríkjamanna og Þjóðverja á þessum slóðum. Markmið þess verkefnis er að samræma herþjálfun og heræfingar í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi.
Bretar hafa sent 19 hópa til Úkraínu til að þjálfa um 1.600 í flugher landsins en stefnt er að alls muni 2.000 manns hljóta þjálfun undir stjórn Breta.