Home / Fréttir / Breskt flugmóðurskip leiðir æfingar í norðurhöfum

Breskt flugmóðurskip leiðir æfingar í norðurhöfum

HMS Queen Elizabeth

Á næstunni verður breska flugmóðurskipið HMS Queen Elizabeth með fylgdarskipum á æfingu við norðurströnd Noregs með þátttöku norrænna og bandarískra herja auk liðsafla frá öðrum NATO-ríkjum.

Sagt var frá æfingunni á norsku vefsíðunni Barents Observer fyrir fáeinum dögum og vitnað í samtal við Thomas Gjesdal, upplýsingafulltrúa norska flotans.

Í fylgd HMS Queen Elizabeth verða norska freigátan KNM Otto Sverdrup og stuðningsskipið KNM Maud auk herskipa frá Þýskalandi, Belgíu og Frakklandi. Þá verða einnig önnur skip úr breska flotanum og herskip frá Hollandi undir merkjum sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (Joint Expeditionary Force, JEF).

Auk orrustuþotna frá flugmóðurskipinu taka þotur frá Noregi, Bandaríkjunum, Finnlandi og Svíþjóð þátt í æfingunum.

Fyrr í sumar sigldi bandaríska flugmóðurskipið USS Gerald R. Ford í forystu flotadeildar norður með strönd Noregs og æfði með norska flughernum við Lófóten-eyjar, norðan heimskautsbaugs. Á sama tíma voru norrænar orrustuþotur á æfingunni Arctic Challenge í lofthelgi Noregs, Svíþjóðar og Finnlands.

Systurskip HMS Queen Elizabeth er flugmóðurskipið HMS Prince of Wales sem kom til Reykjavíkur snemma í apríl 2022 eftir æfingu við strönd Noregs. Tóku meira en 3.000 sjóliðar og landgönguliðar Breta þátt í æfingunni Exercise Cold Response 2022 og sagði breski flotinn hana hafa verið mestu æfingu á nyrsta hluta Atlantshafs frá því í kalda stríðinu.

Eftir fjögurra daga dvöl í Reykjavík sigldi HMS Prince of Wales norður að Jan Mayen (13. apríl 2022).

Í Barents Observer segir frá því að tvær torséðar bandarískar B-2 Spirit sprengjuþotur hafi átt stutta viðdvöl til eldsneytistöku í Ørland-flugherstöðinni í norðurhluta Noregs.

Vélarnar komu frá Keflavíkurflugvelli þar sem þrjár B-2 Spirit þotur voru frá 13. ágúst til 14. september.Tvær þeirra lentu á Ørland-flugvelli 29. ágúst 2023 og sagði í fréttum að aldrei fyrr hefðu slíkar vélar lent á meginlandi Evrópu.

Fyrir skömmu var stýriflaugakafbáturinn USS Florida í höfn í Tromsø í N-Noregi og þangað kom um svipað leyti, 21. september, kjarnorkuknúni franskur sóknarkafbátur af Rubis-gerð.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …