
Innanríkismálanefnd breska þingsins birti miðvikudaginn 3. ágúst skýrslu þar sem ESB er gagnrýnt fyrir viðbrögð sín við flótta- og farandfólksvandanum. Í skýrslunni segir einnig að þrátt fyrir úrsögn Breta úr ESB „skipti stefna ESB í útlendingamálum höfuðmáli fyrir Breta“.
Í skýrslunni er breska ríkisstjórnin einnig gagnrýnd fyrir að búa ekki nægilega vel að Landamæravörslunni og þeim sem við hana starfa. Landamæraverðir hafi aðeins aðgang að þremur skipum til að gæta 7.000 mílna strandlengju. „Flotinn ætti að láta Landamæravörslunni í té skip til að bæta úr skortinum þar sem þess er þörf,“ segir í skýrslunni. Af fimm skipum Landamæravörslunnar sinnir eitt verkefnum á Miðjarðarhafi og annað er í slipp.
Innanríkisráðuneytið segir að landamæranna sé gætt með ratsjám og flugeftirliti. Átta ný skip til vörslu landamæranna eru í smíðum.
Rob Whitemann, yfirmaður bresku Landamæravörslunnar frá 2011 og 2013, segir að um ein millljón manna frá löndum utan EES-svæðisins stundi ólöglega vinnu í Bretlandi. Margir þeirra hafi komið löglega til landsins, hafi fundið vinnu og ekki horfið úr landi þegar vegabréfsáritun þeirra féll úr gildi. Hann sagði:
„Ekki er rætt næstum því eins mikið um ólöglega komu farandfólks og ólöglega vinnu eins og aðra þætti útlendingamála. Ríkið hefur hvorki fjármuni né pólitískan styrk til að vísa hundruð þúsunda manna úr landi.“