Home / Fréttir / Breskir þingmenn samþykkja loftárásir – Verkamannaflokkurinn í sárum

Breskir þingmenn samþykkja loftárásir – Verkamannaflokkurinn í sárum

Hilary Benn
Hilary Benn

Tillaga Davids Camerons, forsætisráðherra Breta, um að breska flughernum yrði veitt heimild til loftárása á skotmörk í Sýrlandi í baráttunni við Daesh (eins og forsætisráðherrann vill kalla Ríki íslams) naut mikils stuðnings í breska þinginu að kvöldi miðvikudags 2. desember. Breskar orrustuþotur voru sendar til árása skömmu síðar frá flugstöð Breta á Kýpur.

Alls greiddu 397 þingmenn tillögunni atkvæði að loknum 10 klst. umræðum, 223 voru á móti, meirihlutinn var því 174 atkvæði. Klofningur varð innan Verkamannaflokksins þar sem 67 af 231 þingmanni flokksins studdi tillögu Camerons þrátt fyrir að Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, væri henni andvígur.

Cameron líkti Daesh við „miðalda óargadýr“ og hvatti þingmenn til að verða „við ákalli“ bandamanna á borð við Frakka og Bandaríkjamenn: „Spurningin er þessi: vinnum við með bandamönnum okkar að því að minnka og eyðileggja þessa ógn eða sitjum við með hendur í skauti og bíðum árásar á okkur?“ spurði forsætisráðherrann.

Þingsalurinn var þéttsetinn og margir tylltu sér í tröppur á gangvegum milli bekkja eða stóðu í enda salarins.

Hilary Benn, utanríkisráðherra í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins, var síðasti ræðumaður flokksins í umræðunum. Hann mælti eindregið með loftárásunum og snerist þannig gegn skoðunum Corbyns.

Benn höfðaði til flokksbræðra sinna með því að minna þá á að sósíalistar hefðu ávallt reitt til höggs gegn fasistum. „Við stöndum nú andspænis fasistum,“ sagði Benn og rifjaði upp að á fjórða áratugnum hefðu sósíalistar barist gegn Francisco Franco í spænsku borgarastyrjöldinni.

Að lokinni ræðu Benns klöppuðu íhaldsþingmenn honum lof í lófa sem er næsta óvanalegt í þingsalnum. Álitsgjafar segja að Benn hafi flutt áhrifaríkustu ræðuna, hann hafi ekki talað eins og skugga-utanríkisráðherra heldur eins og forsætisráðherra.

Talið er að átökin innan Verkamannaflokksins dragi dilk á eftir sér og Jeremy Corbyn eigi mikið verk fyrir höndum vilji hann sameina flokkinn – það takist í raun ekki nema hann taki upp raunsærri stefnu í utanríkismálum.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …