Home / Fréttir / Breskir þingmenn óttast smygl á fólki með bátum til Bretlands

Breskir þingmenn óttast smygl á fólki með bátum til Bretlands

 

Breskur strandgæslubátur.
Breskur strandgæslubátur.

Anne Main, þingmaður breska Íhaldsflokksins og ESB-aðildarandstæðingur, hefur dregið fram upplýsingar sem sýna að varsla undan ströndum Bretlands er mun minni en annarra landa innan ESB. Frá þessu er sagt á vefsíðunni The Telegraph fimmtudaginn 9. júní.

Anne Main segir að Bretar haldi aðeins úti þremur strandgæslubátum en önnur ríki þar sem strandlengjan sé styttri haldi úti mun fleiri skipum til strandgæslu. Hjá Ítölum séu þau 600, Grikkjum 203 og Spánverjum 147, meira að segja Hollendingar eigi 16 skip þótt strandlengja þeirra sé aðeins lítið brot af þeirri bresku,

Strandlengja Bretlands er 7.723 mílur, Ítalíu 4.722, Spánar 3.085, Grikklands 8.497 og Hollands 280 mílur.

Upplýsingarnar sem Anne Main aflaði urðu til þess að Keith Vaz, formaður innanríkismálanefndar breska þingsins, skrifaði bréf til Theresu May innanríkisráðherra og óskaði skýringa.

Blaðið The Daily Telegraph hefur um nokkurt skeið barist fyrir hertu landamæraöryggi. Segir blaðið að nú þegar hafi forystumenn í baráttunni gegn hryðjuverkum og yfirmenn innan lögreglunnar tekið til við endurbætur vegna frétta blaðsins.

Athygli beindist meira en áður að strandgæslunni þegar fréttir bárust fyrir skömmu af björgun 16 Albana úr smábáti á Ermarsundi undan strönd Kent.

Keith Vaz, þingmaður Verkamannaflokksins, sagði við blaðið:

„Það getur ekki verið eðlilegt að eyþjóð ráði yfir mun færri skipum til að gæta landamæra sinna en þjóðir á meginlandi Evrópu. Nýlegir atburðir sýna að þörf er á fleiri skipum og landamæraverðir eiga að geta óskað eftir því við flotann að hann láti þeim í té skip og tæki sé þörf á því. Við eigum um þessar mundir í stríði á hafi úti við smyglara á fólki, þeir hafa áttað sig á að snöggur blettur er á Bretlandi og ég hef skrifað innanríkisráðherranum og beðið um að tekið sé á þessum vanda.“

Talsmaður innanríkisráðuneytisins sagði að ekki væri tekið tillit til allra skipa flota og lögreglu þegar talan þrír væri nefnd. „Við höldum uppi öryggisgæslu á hafinu með fjölþættum aðgerðum. Landamæraliðið notar strandgæslubáta, ratsjár og eftirlit úr lofti til að finna þá sem reyna að smygla vopnum og fíkniefnum eða auðvelda fólki að komast ólöglega til landsins. Við vinnum einnig náið með lögreglu í einstökum löndum og fjölþjóða lögreglu við greiningu sem gerir okkur kleift að bregðast við áður en sakamenn halda af stað til Bretlands.“

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …