
Öryggis- og varnarmál settu svip sinn á umræður um aðild Breta að ESB og þjóðaratkvæðagreiðsluna um hana mánudaginn 9. maí. David Cameron forsætisráðherra, talsmaður aðildar að ESB, flutti ræðu í British Museum að morgni mánudagsins og sagði það mundu kalla hættu yfir Breta að segja skilið við sambandið.
Í ræðunni sagði Cameron það „skyldu við föðurlandið“ að vera áfram í ESB og spurði: „Getum við undanbragðalaust treyst því að friður og stöðugleiki haldist í okkar heimsálfu? Er þess virði að taka áhættu á þessu sviði? Ég mundi aldrei sýna þá hvatvísi að fullyrða það,“ sagði Cameron og bætti við að ESB væri meðal þess sem stuðlaði að öryggi Bretlands auk NATO og annars.
Boris Johnson, þingmaður Íhaldsflokksins, fyrrv. borgarstjóri London, andmælti forsætisráðherranum og sagði að það væri NATO en ekki ESB sem tryggði öryggi í Evrópu.
John Baron, þingmaður Íhaldsflokksins, sagði fráleitt að ESB-úrsögn mundi grafa undan stöðugleika og ýta undir hættu á stríði. Forsætisráðherrann bæri greinilega lítið traust til samstarfsríkjanna í Evrópu. Þá minnti Baron á að ekki væri langt síðan forsætisráðherrann hefði mælt með ESB-úrsögn næði hann ekki fram nokkrum léttvægum breytingum á aðildarskilmálum Breta. Á að skilja hann og nokkra helstu ráðherra hans þannig núna að þeir hefðu verið fúsir að taka þá áhættu að það yrði stríð yrði ekki fallist á kröfur þeirra? spurði þingmaðurinn og sagði síðan:
„Það er NATO og lýðræði sem eru enn sem fyrr hornsteinar öryggis Evrópu. Í Suður-Evrópu er fjöldaatvinnuleysi vegna stefnu ESB, það hefur soðið upp úr í samskiptum ESB-ríkjar vegna óstjórnar í útlendingamálum, í raun er ESB nú frekar undirrót óstöðugleika [en stöðugleika].“