Home / Fréttir / Breskir hermenn koma til viðveru í Eistlandi

Breskir hermenn koma til viðveru í Eistlandi

Breskum þungavopnum ekið um borð í ferju í Þýskalandi. Þau verða flutt til Eistlands.
Breskum þungavopnum ekið um borð í ferju í Þýskalandi. Þau verða flutt til Eistlands.

Bretar sendu fyrstu 120 landhermenn sína til Eistlands föstudaginn 17. mars. Fyrsta verkefni þeirra verður að koma á fót breskri herstöð í landinu og búa í haginn fyrir næsta hluta 800 manna liðsafla sem kemur frá Bretlandi í apríl. Þetta er liður í átaki undir merkjum NATO til að efla varnir Eystrasaltsríkjanna.

Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, sagði í samtali við BBC að Bretar hefðu ekki sent jafn fjölmennan herafla til meginlands Evrópu frá lokum kalda stríðsins, það væri nauðsynlegt núna vegna „ágengni Rússa“. Þetta væri fyrsta skrefið í þessa veru til að takast á við breytta stöðu í öryggismálum Evrópu sem mætti rekja til innlimunar Rússa á Krímskaga fyrir þremur árum.

Bretar flytja Challenger-2 skriðreka, AS-90 fallbyssuvagna og bryndreka frá Þýskalandi til Eistlands. Þungavopnin eru flutt með ferju sem verður næstu viku í Eistlandi.

Fallon sagði: „Aukin ágengni Rússa veldur því að við verðum að styrkja öryggiskennd bandamanna okkar í austurhluta Evrópu.“ Þetta væri „varnaraðgerð“ og ekki til þess gerð að „ögra eða stigmagna“. Fyrir NATO vekti að „fæla Rússa frá hvers konar árás“.

Jonathan Beale, varnarmálasérfræðingur BBC, segir að hermennirnir segist vera vel búnir undir alls konar verkefni og bresk stjórnvöld geri sér grein fyrir að Rússar kunni að grípa til lygafréttamennsku og annarra ögrana vegna dvalar hermannanna í Eistlandi.

Fjórar liðssveitir á borð við þá bresku í Eistlandi verða sendar undir merkjum NATO til austurhluta Evrópu. Þær verða í Lettlandi, Litháen og Póllandi þar sem 150 breskir hermenn taka einnig þátt í verkefnum.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …