Home / Fréttir / Breski utanríkisráðherrann segir framgöngu Rússa kannski kalla á stýriflaugar

Breski utanríkisráðherrann segir framgöngu Rússa kannski kalla á stýriflaugar

Philip Hammond
Philip Hammond

 

Meiri og vaxandi ógn frá Rússum kann að knýja bresk stjórnvöld til að óska eftir að Bandaríkjamenn setji upp skotpalla fyrir stýriflaugar sínar í Bretlandi.

Philip Hammond, utanríkisráðherra Breta, sagði í samtali við Andrew Marr í BBC  sunnudaginn 7. júní að það væru ýmsar „dökkar vísbendingar“ um aukna hættu á óvinveittum aðgerðum rússneska hersins. Ríkisstjórnin mundi kanna hvort koma ætti meðaldrægum eldflaugum fyrir á bresku landsvæði.

Hammond sagði að það væri „ekkert skýrt merki“ um að Rússar byggju sig undir árás á Úkraínu. Hann minnti hins vegar á að Vladimír Pútín héldi „öllum dyrum opnum“.

Hann varaði einnig við „nauðsynjalausum ögrunum“ í garð Rússa sem hefðu á tilfinningu að á þá hefði verið ráðist.

Ummæli breska utanríkisráðherrans féllu skömmu eftir að Vladimír  Pútín Rússlandsforseti sagði við ítalska blaðið Corriera della Sera. „Aðeins sjúkum manni – og þá kannski helst sofandi – dytti í hug að Rússar mundu allt í einu ráðast á NATO.“

Þegar Hammond var spurður hvort uppsetning bandarískra stýriflauga í væri til marks um skýr skilaboð til Pútíns svaraði hann:

„Ef til vill,  mér finnst þó að við verðum að stíga mjög varlega til jarðar við framkvæmdina. Við verðum að gera Rússum ljóst að við leyfum þeim ekki að fara yfir rauð strik okkar.

Jafnframt verðum við að viðurkenna að Rússum finnst að þeir séu umkringdir og undir árás og við viljum ekki standa að nauðsynjalausum ögrunum.“

Í tilefni af ummælum utanríkisráðherrans leitaði breska blaðið The Independent frekari upplýsinga í ráðuneyti hans og þar svaraði embættismaður: „Hér er um ímyndað ástand að ræða. Bandaríkjastjórn hefur ekki sent neina tillögu í þessa veru en við munum skoða öll tilmæli á málefnalegum grunni.“

 

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …