Home / Fréttir / Breski flugherinn tekur fyrstu tvær P-8 eftirlitsþoturnar í notkun

Breski flugherinn tekur fyrstu tvær P-8 eftirlitsþoturnar í notkun

Bresk P-8-vél í flugtaki.
Bresk P-8-vél.

Breski flugherinn, The Royal Air Force (RAF) tók miðvikudaginn 1. apríl formlega í notkun glænýjar þotur til eftirlits á hafi úti. Í tilkynningu af þessu tilefni er tegundin kölluð Poseidon MRA Mk1 Maritime Patrol Aircraft. Hér er um Poseidon-kafbátaleitarvélar frá Boeing-verksmiðjunum að ræða.

Bretar taka nú tvær vélar í þjónustu sína en eiga von á sjö til viðbótar. Segir yfirstjórn flughersins að með vélunum verði öryggisgæsla á hafi úti efld og stuðlað að því að auka vernd Breta og hagsmuna þeirra, heima og erlendis.

Í lýsingu á vélunum segir að þeim sé ætlað að stunda eftirlit á hafi úti, leita uppi kafbáta sem hugsanlega verði beitt gegn Bretum og verja kjarnorkuflota Breta. Vélarnar séu búnar fullkomnustu leitar-, greiningar- og eftirfylgnitækni bæði gagnvart kafbátum og herskipum. Um borð í hverri vél séu allt að 129 sónarbaujur sem nota megi við leit að óvina-kafbátum og vopna megi vélarnar með Mk54 tundurskeytum gegn þessum kafbátum.

Heimavöllur vélanna verður í Lossiemouth, nyrst á Skotlandi. Fyrst um sinn hafa þær aðsetur á Kinloss-flugvelli í Moray í Skotlandi. Unnið er að því að bæta flugbrautir og flugskýli í Lossiemouth.

Bandaríski flotinn notar P-8A Poseidon-þotur til eftirlits og kafbátaleitar. Hafa þær tímabundna viðdvöl á Keflavíkurflugvelli séu þær sendar til eftirlits í norðurhöfum. Verður flugskýli og aðstöðu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli breytt til að þar megi veita Poseidon-vélum viðunandi þjónustu.

Flugherir Indlands og Ástralíu eiga þotur af þessari gerð. Flugherir Noregs og Nýja-Sjálands hafa einnig ákveðið að kaupa P-8A-þotur.

Þróunarsamningur vegna um smíði P-8 var gerður í júní 2004 og P-8-vél var fyrst flogið 25. apríl 2009. Bandaríski flotinn skýrði 29. nóvember 2013 frá því að hann hefði tekið fyrstu vélarnar í notkun.

 

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …