Home / Fréttir / Breski flotinn vill efla norðurslóðavarnir vegna Kínverja

Breski flotinn vill efla norðurslóðavarnir vegna Kínverja

Breskur sóknarfloti á Norðursjó.
Breskur sóknarfloti á Norðursjó.

Fullskipaður sóknarfloti Breta í kringum flugmóðurskipið HMS Prince of Wales kom saman í fyrsta sinn á Norðursjó nú í vikunni. Næstu daga taka skipin sem koma frá nokkrum löndum þátt í erfiðari æfingu, Joint Warrior.

Yfirmaður breska flotans segir að Kínverjar muni færa sér í nyt nýjar siglingaleiðir til Atlantshafs sem opnist vegna ísbráðnunar í Norður-Íshafi.

Í ræðu sem Tony Radakin flotaforingi flutti um borð í flugmóðurskipinu sagði hann að loftslagsbreytingar myndu skapa „nýjar sjóflutningaleiðir efst á jörðinni“ sem mundu „stytta siglingatíma milli Evrópu og Asíu“ um helming.

Radakin flotaforingi spurði: „Þegar Kínverjar sigla stækkandi flota sínum inn á Atlantshaf, koma þeir þá löngu eða stuttu leiðina?“

Hann sagði að frjálsri ferð „þjóða, herflota þeirra og umfram allt flutningaskipa“ kynni að verða stefnt í hættu þegar Kínverjar byrja að nota þessar leiðir þar sem þeir mundu „ógna þessu grunnkerfi“ um frjálsar siglingar.

„Samkeppni harðnar í heiminum, meiri keppni,“ sagði flotaforinginn. „Við verðum að sinna okkar hlutverki í heiminum. Þegar siglingaleiðir um norðurslóðir verða greiðfærari verður meiri keppni og samkeppni þar líka.“

Jeremy Quin, ráðherra fjárfestinga í varnarmálum, benti á að „loftslagsbreytingar eru staðreynd, það er raunveruleg hætta á þá opnist siglingaleiðir og þær verða væntanlega nýttar“.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið birti skýrslu um kínverska alþýðuherinn í september þar sem segir að Kínverjar eigi stærsta herflota heims með 350 herskipum og kafbátum.

Í breska blaðinu The Daily Telegraph (DT) segir að innan breska hersins hafi menn áhyggjur af vexti kínverska herflotans þar sem líklega láti hann meira að sér kveða á Atlantshafi sem litið er á sem „bakgarð“ Breta.

Sagt er að yfirmenn breska hersins óttist að svipað ástand skapist eins og á Hormuz-sundi en þar varð til dæmis hættuástand í júlí 2020 eftir að breski flotinn lét að sér kveða við að stöðva og hertaka íranskt olíuskip skammt frá Gíbraltar vegna grunsemda um að með ferð skipsins væri brotið gegn bannreglum ESB.

Íranir hefndu sín með því að taka olíuskip undir breskum fána og halda því föstu í tvo mánuði vegna grunsemda um brot á siglingareglum.

Radakin flotaforingi minnti einnig á að siglingaleiðir á norðurslóðum lægju að Rússlandi þar sem „sækti í sig veðrið“.

„Rússland sem lætur nú meira að sér kveða á Atlantshafi, í bakgarði okkar, en í meira en 30 ár,“ sagði hann.

DT minnir á að í september hafi breski flotinn minnt Kremlverja á siglingafrelsið þegar skip flotans voru í forystu herskipa og herflugvéla frá Bandaríkjunum, Noregi og Danmörku sem fóru austur Barentshaf ekki fjarri Kólaskaganum og heimahöfnum kjarnorku-kafbátaflota Rússa og stærstu herskipahöfnum þeirra.

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …