
Breska flugmóðurskipið HMS Queen Elizabeth tók þátt í fyrsu NATO-æfingu sinni í vikunni, fór hún fram undan strönd Portúgals og á Miðjarðarhafi. Skipið og fylgiskip þess eru á leið í átta mánaða ferð til Indlandshafs og um Suður-Kínahaf til Japans.
Fréttamaður Reuters ræddi við Steve Moorhouse, flotaforingja og stjórnanda flugmóðurskipsins, um borð í því með F-35B orrustuþotur í flugtaki við hlið hans.
Flotaforinginn sagði að með skipinu og ferð þess væri gefi „gífurlega sterk yfirlýsing“ um að breski flotinn færi um öll heimshöfin að nýju og mundi til dæmis láta að sér kveða á Indlands- og Kyrrahafssvæðinu.
HMS Queen Elizabeth tekur þátt í æfingum með skipum frá Bandaríkjunum, Singapúr, Japan og Suður-Kóreu sagði Moorhouse.
Bretar eiga nú tvö flugmóðurskip eins og Kínverjar. Bandaríkjamenn eiga hins vegar 11 flugmóðurskip. Um borð í nýja breska 65.000 lesta skipinu eru átta breskar F-35B orrustuþotur og 10 bandarískar F-35 orrustuþotur og í 1.700 manna áhöfn þess eru 250 bandarískir landgönguliðar.
Skipinu fylgja tveir tundurspillar, tvær freigátur, kafbátur og tvö stuðningsskip í þessari för sem er 26.000 sjómílna löng, þá eru bandarískur tundurspillir og hollensk freigáta með í leiðangrinum.
Á Miðjarðarhafi er breska flotadeildin þátttakandi í mestu heræfingu NATO í ár, Steadfast Defender. Um 5.000 manna liðsafli og 18 skip taka þátt í æfingunni.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, gerði sér ferð um borð í HMS Queen Elizabeth og sagði að með því og æfingunni sýndi NATO staðfestu sína.
„Við stöndum frammi fyrir hnattrænum ógnum og verkefnum þar á meðal breyttu valdajafnvægi vegna vaxtar Kína,“ sagði Stoltenberg, NATO liti ekki á Kínverja sem andstæðinga þótt þeir ættu stærsta herflota í heimi.