Home / Fréttir / Breska utanríkisráðuneytið telur sennilegt að reynt verði að vinna hryðjuverk í Danmörku

Breska utanríkisráðuneytið telur sennilegt að reynt verði að vinna hryðjuverk í Danmörku

Breska utanríkisráðuneytið sendi föstudaginn 18. ágúst frá sér tilkynningu um að hryðjuverkamenn muni „sennilega reyna að gera árás í Danmörku“.

Ráðuneytið uppfærði með þessu eldri tilkynningu á vefsíðu sinni að ekki væri „unnt að útiloka hryðjuverkaárás í Danmörku“.

Ráðuneytið segir auk þess að stjórnvöldum í Danmörku hafi tekist að koma í veg fyrir fjölda skipulagðra árása.

Sunnudaginn 13. ágúst breytti breska ráðuneytið leiðbeiningum sínum til þeirra sem hafa í hyggju að ferðast til Svíþjóðar. Þar var sagt að „mjög sennilega“ myndu hryðjuverkamenn gera tilraun til árásar.

Tilkynningarnar eru birtar eftir að öfgafulla íslamistahreyfingin al-Qaída hvatti til árása á Danmörku og Svíþjóð.

Fimmtudaginn 17. ágúst tilkynnti Charlotte von Essen, forstjóri sænsku öryggislögreglunnar (Säpo) að hún hefði ákveðið að hækka öryggisviðbúnað í Svíþjóð um eitt stig, frá þremur upp í fjóra á fimm punkta kvarða, og tekur hann nú mið af mikilli ógn (s. Högt hot.) Líkur eru miklar á að gerendur sem hafi árás í huga geri hana.

Forstjórinn nefndi að innrás Rússa í Úkraínu og upplýsingafalsanir hefðu ýtt undir þessa ákvörðun. Þá hefði mátt greina að aðilar í þjónustu erlendra ríkja ætluðu að færa sér í nyt neikvæða athygli sem beinst hefði að Svíþjóð. Á blaðamannafundi taldi Charlotte von Essen að hættustigið yrði lengi svona hátt. Almennir borgarar voru hvattir til að láta það ekki hafa áhrif á daglegt líf sitt en jafnframt sýna nauðsynlega varkárni.

PET, öryggislögreglan í Danmörku, benti á að þar í landi hefði hættustigið verið í fjórum af fimm um nokkurt árabil. Nú hefðu Svíar fært sig á sama stig en óþarft væri fyrir Dani að fara upp á fimmta stig.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …