Home / Fréttir / Breska stjórnin telur sig hafa brexit-meirihluta á þingi

Breska stjórnin telur sig hafa brexit-meirihluta á þingi

Forystumenn ríkisstjórnarinnar við þingumræðurnar um brexit 19. október 2019.
Forystumenn ríkisstjórnarinnar við þingumræðurnar um brexit 19. október 2019.

Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta, sagði BBC-sjónvarpsmanninum  Andrew Marr sunnudaginn 20. október að svo virtist sem ríkisstjórn Boris Johnsons hefði meirihluta að baki tillögu sinni um viðskilnaðarsamninginn við ESB á þingi.

Hann sagði marga innan ESB „mjög óhressa“ ef frekari frestun yrði á brexit. Ríkisstjórnin stefnir að því að greidd verði atkvæði að nýju um málið mánudaginn 21. október. Það er þó komið undir John Bercow, forseta neðri deildar þingsins, hvort svo verði.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sendi þrjú bréf til Evrópusambandsins að kvöldi laugardags 19. október eftir að neðri deild breska þingsins samþykkti (322:306) að fresta afgreiðslu viðskilnaðarsamningsins við ESB þar til frumvörp um afleiðingar viðskilnaðarins yrðu lögð fyrir þingið. Var forsætisráðherranum skylt að lögum að óska eftir fresti á brexit.

Í fyrsta bréfinu til Donalds Tusks, forseta leiðtogaráðs ESB, er farið fram á frestinn eins og lögin krefjast. Johnson ritar ekki undir bréfið sem er ljósrit af breskum lögum.

Í öðru bréfinu sem Johnson sendi ESB eru færð rök gegn því að veita Bretum lengri frest. Það séu mistök að gefa frekari frest vegna brexit. Tim Barrow, sendiherra Breta gagnvart ESB, sendi þriðja bréfið.

Tusk staðfesti móttöku bréfsins með beiðni um lengri brexit-frest og sagðist ætla að ræða við leiðtoga ESB-ríkjanna.

Johnson segir að hann vilja knýja viðskilnaðarsamninginn í gegn fyrir 31. október annars fari Bretar úr ESB án samnings. Michael Gove, brexit-ráðherra Breta, ítrekaði þetta sjónarmið í samtali við Sky-sjónvarpsstöðina sunnudaginn 20. október.

„Við förum 31. október, við höfum burði og getu til þess,“ sagði Gove. „Bréfið var sent að kröfu þingsins … en þingið getur ekki breytt skoðun forsætisráðherrans, þingið getur ekki breytt stefnu eða ásetningi ríkisstjórnarinnar.“

Enn er tími fyrir breska þingið til að staðfesta viðskilnaðarsamning Breta og ESB. ESB-þingið hefur einnig tíma til að gera það fyrir 31. október.

Talið er ólíklegt að leiðtogar ESB-ríkjanna 27 hafni beiðni Breta um frekari brexit-frestun. Embættismenn gefa hins vegar til kynna að það geti tekið sinn tíma að fá samþykkið. Ekkert verði gert með hraði.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur dregið mest úr nauðsyn þess að veita Bretum lengri frest. Leiðtogaráð ESB telur brýnt að eyða allri óvissu með því að koma í veg fyrir úrsögn Breta án samnings. Frestun verður þó aðeins veitt séu öll ríkin 27 sammála um hana. Embættismaður ESB taldi engar líkur á að Macron mundi beita neitunarvaldi sínu.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …