Home / Fréttir / Breska stjórnin sækir að rússneskum auðmönnum og þrengir að Pútín

Breska stjórnin sækir að rússneskum auðmönnum og þrengir að Pútín

Vladimír Pútín og Oleg Deripska, rússneskur auðjöfur.
Vladimír Pútín og Oleg Deripska, rússneskur auðjöfur.

Leiðtogar Bretlands, Bandaríkjanna, Frakklands, Kanada og Þýskalands hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir „lýsa fullu trausti“ á niðurstöðu Breta um að mennirnir tveir sem eru grunaðir um eiturefnaárásina í Salisbury á Englandi séu útsendarar GRU, njósnastofnunar rússneskas hersins. Breska ríkisstjórnin sækir að rússneskum auðmönnum með upptöku á fé þeirra.

Leiðtogar ríkjanna fimm eru einnig sammála um að það sé „næstum fullvíst“ að árásin hafi verið gerð með samþykki á æðstu stöðum innan rússnesku ríkisstjórnarinnar.

Theresa May, Donald Trump, Emmanuel Macron, Justin Trudeau og Angela Merkel rita undir yfirlýsinguna og þau eru einnig sammála um að vinna saman að því að svara ógninni sem stafar af rússneska ríkinu. Í yfirlýsingunni segir:

„Við höfum þegar gripið til sameiginlegra aðgerða til að trufla aðgerðir GRU með viðamestu sameiginlegu brottvísun á ótilkynntum njósnurum í sögunni.

Upplýsingarnar sem gefnar voru í gær [5. september] herða ásetning okkar til að halda áfram að trufla óvinveittar aðgerðir erlendra njósnaneta á landi okkar, fylgja fram banninu við efnavopnum, vernda borgara okkar  og verja okkur sjálf gegn hvers kyns illviljuðum aðgerðum ríkja gegn okkur og þjóðfélögum okkar.“

Bretar vilja harðari refsiaðgerðir gegn Rússum og virkari aðgerðir til að gera upptæka falda fjármuni til að þrengja að Vladimir Pútín Rússlandsforseta.

Í The Daily Telegraph segir fimmtudaginn 6. september að breska stjórnin hafi nýtt sér heimildir til að gera upptæka fjármuni auðugra Rússa sem standa nærri Pútín. Þetta sé liður í aðgerðum til að þrýsta á rússnesk stjórnvöld.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman fimmtudaginn 6. september og ræddi eiturefnaárásina.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …