Home / Fréttir / Breska ríkisstjórnin grípur til aðgerða gegn Rússum vegna taugaeitursins

Breska ríkisstjórnin grípur til aðgerða gegn Rússum vegna taugaeitursins

Theresa May, forsætisráðherra Breta.
Theresa May, forsætisráðherra Breta.

Breska ríkisstjórnin hefur ákveðið að vísa 23 rússneskum sendiráðsmönnum úr landi vegna árásarinnar með taugaeitri á feðginin Sergei Skripal og Juliu sunnudaginn 4. mars í Salisbury í Suður-Englandi. Bretar líta á alla 23 sendiráðsmennina sem njósnara.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, kynnti þessa ákvörðun í ræðu í neðri deild breska þingsins um hádegisbil miðvikudaginn 14. mars. Rússnesk stjórnvöld höfðu gert lítið úr tilmælum bresku ríkisstjórnarinnar um að skýra hlut Rússa í málinu. Mánudaginn 12. mars gaf May þeim frest til miðnættis 13. mars til að gera það.

Forsætisráðherrann sagði að Bretar mundu hætta öllum beinum samskiptum við Rússa á hærri stigum stjórnkerfisins. Þar með væri opinbert boð til Sergeis Lavrovs, utanríkisráðherra Rússa, til Bretlands afturkallað.

Enginn úr bresku konungsfjölskyldunni eða ríkisstjórn landsins fara til Rússlands vegna heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu í sumar.

Hert verður eftirlit með komu einkaflugvéla til Bretlands.

Eignir rússneska ríkisins í Bretlandi verða frystar ef fyrir liggur vitneskja um að þær kunni að verða nýttar til að ógna lífi eða eignum breskra ríkisborgara eða þeirra sem búa í Bretlandi.

Hugað verður að setningu laga til að efla varnir gegn „fjandsamlegri starfsemi ríkja“.

May sagði að Rússar hefðu ekki gefið „neinar skýringar“ á því hvernig unnt var að nota þetta taugaeitur í Bretlandi Moskvumenn hefðu brugðist við með „kaldhæðni, virðingarleysi og ögrunum“. Það jafnaðist á við „ólögmæta valdbeitingu“ að nota rússneskt taugaeitur innan Bretlands.

Áður en forsætisráðherrann ávarpaði þingið og brást við athugasemdum þingmanna sem styðja aðgerðir ríkisstjórnarinnar án tillits til flokksbanda sat hún fund með helstu öryggisráðgjöfum sínum. Hún sagði að ekki væri unnt að komast að annarri niðurstöðu en að „rússneska ríkið væri sekt“ um morðtilraun gegn Skripal og dóttur hans.

Hún sagði „sorglegt“ að Pútín hefði „kosið að haga sér svona“.

Breska utanríkisráðuneytið varar Breta við að ferðast til Rússlands og segir að „aukin pólitísk spenna“ leiði til þess að Bretar eigi „að huga að því að hugsanlega ríki andúð í garð Breta um þessar mundir og þeir kunni að verða fyrir óþægindum“.

May lagði mikla áherslu á að hún hefði verið í sambandi við Angelu Merkel Þýskalandskanslara og forsetana Emmanuel Macron Frakklandi og Donald Trump Bandaríkjunum og styddu þeir afstöðu stjórnar sinnar. Sömu sögu væri að segja frá NATO en hún hefði verið í sambandi við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra bandalagsins, þá væri ESB einnig að baki Bretum í þessu máli. Klukkan 19.00 að ísl.tíma miðvikudaginn 14. mars kemur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna saman að ósk Breta.

Rússneska sendiráðið í London brást reiðilega við yfirlýsingu breska forsætisráðherrans miðvikudaginn 14. mars. Í tilkynningu fordæmdi það brottrekstur starfsmanna sendiráðsins og sagði hann „óvinabragð“ sem væri „algjörlega óviðunandi, órökstutt og skammsýnt“.

Á vefsíðu sendiráðsins sagði að núverandi forystumenn breskra stjórnmála bæru „alla ábyrgð á versnandi samskiptum Rússa og Breta“.

Alexander Jakovenko, sendiherra Rússa, sagði aðgerðir Breta „ögrun“. Eftir ávarp May hvöttu nokkrir þingmenn til þess að rússneski sendiherrann yrði rekinn úr landi. Framkoma hans í garð þingmanna væri óþolandi. Hann teldi sig hafa stöðu til að heimta fundi með þingmönnum í því skyni að hafa áhrif á málflutning þeirra eða afstöðu í atkvæðagreiðslu. Tók May undir gagnrýni á sendiherrann fyrir yfirgangssemi.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …