Home / Fréttir / Breska gyðingasamfélagið sakar Jeremy Corbyn og Verkamannaflokk hans um gyðingahatur

Breska gyðingasamfélagið sakar Jeremy Corbyn og Verkamannaflokk hans um gyðingahatur

 

Jeremy Corbyn
Jeremy Corbyn

Gyðingasamfélagið í Bretlandi telur að Verkamannaflokkurinn hafi „lýst yfir stríði“ á hendur sér segir einn þingmanna flokksins þegar Jeremy Corbyn flokksleiðtogi glímir við sívaxandi þrýsting vegna þess að hann stóð fyrir viðburði á Minningardegi helfararinnar þar sem ríkisstjórn Ísraels var líkt við nazista.

Corbyn sendi frá sér persónulega afsökun að kvöldi þriðjudags 31. júlí eftir að upplýst var að hann talaði og setti fund í húsakynnum breska þingsins árið 2010 sem var hluti farandviðburðar um Bretland undir heitinu: Aldrei aftur fyrir neinn – Auschwitz til Gaza.

John Mann, þingmaður Verkamannaflokksins og formaður nefndar með fulltrúum allra flokka sem stendur gegn gyðingahatri, sagði „stórundarlegt“ að Corbyn hefði staðið fyrir viðburði á Minningardegi helfararinnar sem hefði í raun verið mótmælaaðgerð.

Baráttuhreyfingin gegn gyðingahatri hefur lagt fram formlega kvörtun gegn Corbyn á vettvangi Verkamannaflokksins og krafist þess að hann verði látinn sæta viðurlögum vegna þátttöku sinnar í viðburðinum þegar hann var óbreyttur þingmaður flokksins.

Þá hefur einnig verið kvartað vegna Verkamannaflokksins til Jafnræðis- og mannréttindanefndarinnar vegna ákvörðunar flokksins um að samþykkja ekki alla yfirlýsingu Alþjóðlegu minningarsamtaka helfararinnar (International Holocaust Remembrance Alliance (IHRA)) um andstöðu við gyðingahatur.

Sagt var frá því í The Times að Corbyn hefði staðið fyrir viðurði þar sem fullyrt er að ræðumenn hafi lagt að jöfnu stjórn nazista og stefnu Ísraela. Frásögnin hefur orðið til þess að samskipti Verkamannaflokksins við gyðingasamfélagið versna enn frá því sem áður var.

Í yfirlýsingu sinni sagði Corbyn:

„Fyrr á árum hef ég stundum tekið þátt í fundum til að berjast fyrir réttlæti í þágu þjóðar Palestínu og friðar í Ísrael/Palestínu með fólki með skoðanir sem ég hafna algjörlega.

Ég biðst afsökunar hafi þetta valdið áhyggjum og kvíða.“

John Mann sagðist „ekki hafa hugmynd um“ hvers vegna flokksleiðtogi hans hefði ekki lagt sig meira fram um að bæta samband flokksins við breska gyðinga. Með því skapaði hann flokknum dálítið svigrúm til að snúast gegn þeirri hroðalegu stöðu sem hefði myndast gagnvart gyðingasamfélaginu þar sem flestir litu svo á að Verkamannaflokkurinn hefði lýst stríði á hendur sér.

Í samtali við BBC 4 útvarpsstöðina sagði Mann:

„Sameinuðu þjóðirnar stofnuðu til Minningardagsins um helförina. Árið 2010 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar raunar að láta daginn ná til víðara sviðs, allra mannréttinda.

Árið 2010 var helfararinnar minnst en einnig Kambódíu, Rúanda, Bosníu, Darfur og efnt var til rúmlega 400 viðburða um land allt.

Þingmenn úr öllum flokkum tóku þátt í þessum viðburðum og það er stórundarlegt að einhverjum dytti í hug að skipuleggja and-aðgerð, segja má mótmælaaðgerð, á Minningardegi helfararinnar.

Stórundarlegt.“

Hann sagði að slíkur viðburður bryti gegn „allri venjulegri hegðun“.

Hann sagðist „fagna mjög“ að Corbyn hefði beðist afsökunar en hvatti hann til að samþykkja allt sem segði í texta IHRA.

Gideon Falter, formaður Baráttuhreyfingarinnar gegn gyðingahatri, segir sönnun liggja fyrir um að Jeremy Corbyn sé gyðingahatari og sem stofnun sé Verkamannaflokkurinn and-gyðinglegur. Vandinn snúist ekki um einn mann heldur heila hreyfingu sem hafi tekist að leggja undir sig gamla and-rasista Verkamannaflokkinn og spillt honum með rasista-óþverra.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …