Home / Fréttir / Bresk þingnefnd: Huawei í leynimakki með kínverska kommúnistaflokknum

Bresk þingnefnd: Huawei í leynimakki með kínverska kommúnistaflokknum

_114804666_huaweiuk

Bresk þingnefnd segir að fyrir liggi „skýr vitneskja um leynimakk“ milli kínverska hátæknirisans Huawei og Kommúnistaflokks Kína. Telja þingmennirnir að breska ríkisstjórnin verði að stytta frestinn sem kínverska fyrirtækinu sé gefinn til fjarlægja 5G-búnað sinn úr breska farkerfinu.

Í frétt BBC fimmtudaginn 8. október, sama dag og skýrsla þingnefndarinnar birtist, sagði að Huawei segði skýrslu bresku þingmannanna „ekki trúverðuga þar ráða skoðanir meira en staðreyndir“. BBC segir að hvað sem afstöðu fyrirtækisins líði þyngist nú róður þess.

Talsmaður Huawei sagði við BBC: „Við teljum víst að almenningur sjái í gegnum þessar ásakanir um leynimakk og minnist þess í stað alls sem Huawei hefur fært Bretum undanfarin 20 ár.“

Varnarmálanefnd neðri deildar breska þingsins reisir niðurstöðu sína á vitnisburði fræðimanna, sérfræðinga í netöryggismálum og starfsmanna á sviði farkerfa auk annarra.

Forráðamenn Huawei voru ekki kallaðir fyrir nefndina en þeir fóru á fund annarrar breskrar þingnefndar í júlí 2020.

Í skýrslunni er vitnað í fjárfesti sem segir að kínverska ríkisstjórnin hafi „fjármagnað vöxt Huawei með 75 milljörðum dollara undanfarin þrjú ár“. Hann segir að vegna þessa hafi fyrirtækið getað selt sumt af búnaði sínum fyrir „hlægilega lágt verð“.

Þá er athygli beint að fullyrðingu sérfræðings í óvenjulegum viðskiptaháttum innan Kína sem fullyrðir að Huawei hafi „átt aðild að alls konar njósnum, öryggis- og hugverkaaðgerðum“ þótt talsmenn þess neiti því staðfastlega.

Niðurstaða nefndarinnar er: „Það er ljóst að Huawei hefur náin tengsl við kínverska ríkið og kínverska kommúnistaflokkinn þótt annað sé sagt af þess hálfu. Þetta sést af því hvernig eignarhaldinu er háttað og þeim fjárstuðningi sem það hefur fengið.“

Varað er við því í nefndarálitinu að á Vesturlöndum láti menn blekkjast „af illa upplýstri and-Kína móðursýki“ en hins vegar verði að huga að nauðsynlegum breytingum á afstöðu til Kína.

Stefna bresku stjórnarinnar er nú að farsímafyrirtæki mega ekki kaupa nýjan 5G-búnað frá Huawei eftir lok þessa árs og þau verða að fjarlægja allan Huawei-búnað úr kerfum sínum 2027.

Nefndin segir að ráðherrar eigi að huga að því að setja 2025 sem skilyrði í stað 2027 ef samskipti við Kínverja versna eða það sé nauðsynlegt vegna þrýstings frá Bandaríkjamönnum eða öðrum bandamönnum.

Þingmennirnir segja einnig að frá Peking hafi verið beitt þrýstingi með „óbeinum og beinum hótunum“ til að knýja fram að Huawei fái aðild að breska 5G-farkerfinu. Meðal annars hafi verið látið að því liggja að kínverskar fjárfestingar í kjarnorkuiðnaði Breta yrðu stöðvaðar.

Nefndin segir að hóti Kínverjar meiru eigi ríkisstjórnin að „skoða vandlega framtíðaraðild Kínverja að grunnþáttum í efnahagslífinu“. Við setningu væntanlegra laga um þjóðaröryggi og fjárfestingar eigi að styrkja heimildir ráðherra til að banna fjárfestingar sem þeir telja að feli í sér áhættu.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …