Home / Fréttir / Bresk hugveita: Rússar og NATO búa sig undir stríð

Bresk hugveita: Rússar og NATO búa sig undir stríð

 

Rússneskir hermenn æfa sig fyrir þátttöku í hersýningu.
Rússneskir hermenn æfa sig fyrir þátttöku í hersýningu.

„Með stríðið í Úkraínu í bakgrunni hafa samskiptin milli stjórnvalda í Rússlandi og á Vesturlöndum versnað verulega síðustu 18 mánuði. Einn þáttur þessa uppgjörs undanfarna 15 mánuði […] birtist í því þegar Rússar fara fram á ystu nöf og stofna þannig oft til mikils návígis milli herafla Rússa og NATO og samstarfsaðila bandalagsins. Annar þáttur birtist síðan í víðfeðmari og stærri heræfingum bæði á vegum Rússa og NATO og samstarfsaðila á Evrópu-Atlantshafssvæðinu frá því að átökin hófust í Úkraínu.“

Á þessum orðum hefst greinargerð sem þrír sérfræðingar hugveitunnar European Leadership Network (ELN) í Bretlandi birtu á vefsíðu hennar miðvikudaginn 12. ágúst undir fyrirsögninni: Að búa sig undir hið versta: Aukast líkur á stríði í Evrópu vegna heræfinga Rússa og NATO?

Til að auðvelda almenningi og þeim sem vinna að stefnumótun að skilja raunveruleika hinnar nýju og hættulegu stöðu í evrópskum öryggismálum hefur ELN greint eðli tveggja nýlegra herfæfinga. Þær eru:

Skyndiæfing Rússa í mars 2015 með þátttöku 80.000 hermanna.

NATO-æfingin „Skjöldur bandamanna“ í júní 2015 sem myndaði ramma um fjórar ólíkar æfingar á austurhluta bandalagssvæðisins með þátttöku 15.000 hermanna frá 19 bandalagsríkjum og þremur samstarfsríkjum.

Í greinargerð ELN segir:

„Báðar æfingarnar sýna að hvor aðili um sig æfir með hliðsjón af getu hins og eftir því sem talið er að séu líklegustu stríðsáætlanir hans. Þótt upplýsingafulltrúar haldi því fram að aðgerðunum sé stefnt gegn ímynduðum andstæðingum bendir eðli og umfang þeirra til annars: Rússar búa sig undir átök við NATO og NATO býr sig undir hugsanlegt uppgjör við Rússa.

Við teljum ekki að forystumenn annars hvors aðilans hafi ákveðið að hefja stríð eða óhjákvæmilegt sé að til hernaðarátaka komi milli þeirra en bendum á þá staðreynd að eðli æfinganna hefur breyst og það skiptir máli við að viðhalda núverandi spennuástandi í Evrópu. Spennan og óvissan sem henni fylgir magnast enn frekar við að efnt er til æfinganna án þess að tilkynna fyrirfram um þær eða skýra opinberlega frá að þær standi fyrir dyrum en þetta á greinilega við um nokkrar rússneskar æfingar.“

Rússar æfðu árás fallhlífahers á Lettland með stuðningi árásar-þyrlna og stórskotaliðs en samtímis var Eystrasaltsflota Rússa beitt til að hindra aðgang að landinu af sjó og til loftvarna.

Norðurfloti Rússa í Barentshafi efndi til svipaðra æfinga með stuðningi langdrægra sprengjuvéla og orrustuþotna.

Svartahafsflotinn leitaði að kafbátum. Rússneskar hersveitir við Norður-Íshaf voru einnig virkjaðar og á Sakhalin- og Kúril-eyjum í Kyrrahafi.

NATO æfði landgöngu í NATO-ríkinu Póllandi og samstarfslandinu Svíþjóð og setti á svið aðgerðir gegn rússnesku hólmlendunni Kaliningrad.

Þá voru æfð skriðdrekaátök með stuðningi flughers í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi.

Loks æfði hið sameiginlega ofur-hraðlið NATO Very High Readiness Joint Task Force í Póllandi.

Höfundar greinargerðar ELN segja:

„Það er skoðun okkar að verði farið að eftirfarandi fjórum tillögum megi aftengja eða að minnsta kosti draga mjög úr spennunni sem tengist fleiri og umfangsmeiri heræfingum við núverandi aðstæður:

  • Það er gífurlega mikilvægt að auka upplýsingamiðlun milli NATO og Rússa varðandi fyrirhugaðar æfingar.
  • Báðir aðilar ættu að nota ÖSE-leiðir eins og frekast er unnt auk þess að vísa til gagna um aðgerðir til að efla gagnkvæmt traust og öryggi Confidence and Security Building Measures (CSBMs) sem meðal annars má finna í Vínarskjalinu um leiðir til að auka hernaðarlegan fyrirsjáanleika.
  • Stjórnmálamenn hvors aðila um sig ættu að kanna hag og hættur af því að hert sé enn frekar á æfingum á landamærasvæðum. Ákveði ráðamenn Rússlands og NATO á einhverju stigi að þeir vilji minnka spennu gæti verið gott fyrsta skref að minnka umfang æfinganna eða breyta sviðsmyndum þeirra.
  • Við fyrsta tækifæri ætti að hefja undirbúning að gerð nýs samnings um að setja því landfræðileg mörk hvar hafa megi ákveðnar tegundir vopna og um öflugt eftirlitskerfi til að tryggja framkvæmd samningsins.“

Á vefsíðunni EUobserver segir miðvikudaginn 12. ágúst að Rússar vilji ekkert annað segja um ELN-skýrsluna en að þeir bregðist við útþenslu NATO.

Carmen Romero, talsmaður NATO, sagði að það gæfi ekki rétta mynd að leggja æfingar NATO og Rússa að jöfnu eins og ELN gerði. Rússnesku æfingarnar fælu í sér sóknaraðgerðir og næðu til kjarnorkuvopna, æfingar NATO snerust á hinn bóginn um varnir og næðu aðeins til venjulegra vopna.

Romero sagði Rússa brjóta gegn ÖSE-reglum með því að tilkynna NATO ekki fyrirfram um æfingar sínar. Innrás Rússa í Úkraínu og stríðsáróður þeirra settu æfingar þeirra einnig í sérstakt samhengi.

„Þessar æfingar eru hluti af áreitnari hernaðarstefnu Rússa, hættulegum pólitískum málflutningi, fjölgun í herafla og innlimun Krímskaga. Þetta er hinn nýi strategíski veruleiki í Evrópu,“ sagði talsmaður NATO.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …