Home / Fréttir / Bræður dæmdir fyrir smáglæpi stóðu að hryðjuverkunum í Brussel

Bræður dæmdir fyrir smáglæpi stóðu að hryðjuverkunum í Brussel

 

Myndin er tekin í flugstöðinni í Brussel að morgni þriðjudags 22. mars. Maðurinn til vinstri er  ókunnur, í miðjunni er Ibrahim El Bakraoui - þessir tveir sprengdu sig í loft upp, hinn þriðji, í ljósu fötunum,  skildi eftir sprengju en lagði á flótta.
Myndin er tekin í flugstöðinni í Brussel að morgni þriðjudags 22. mars. Í miðjunni er Ibrahim El Bakraoui sem sprengdi sig. Sá í ljósu fötunum er Najim Laachraoui og er talið að hann hafi sprengt sig í flugstöðinni.  Þriðji maðurinn lengst til vinstri lagði á flótta og skildi eftir sig sprengju.

 

Frederic Van Leeuw, ríkissaksóknari Belgíu, sagði á blaðamannafundi miðvikudaginn 23. mars að 31 hefði fallið og 270 manns særst í árásinni á flugstöðina í Zaventem  við Brussel og Malbeek-brautarstöðina í miðborg Brussel þriðjudaginn 22. mars.

Þrír menn sáust á eftirlitsmyndavél á leið inn í flugstöðina. Tveir þeirra sprengdu sig þar í loft upp, annar þeirra var Ibrahim El Bakraoui, 29 ára belgískur ríkisborgari. Bróðir hans Khalid El Bakraoui (27 ára) sprengdi sig í loft upp á Malbeek-stöðinni, þar týndu um 20 manns lífi. Auk Brahims framdi annar maður sjálfsmorð með sprengju í flugstöðinni. Ekki er vitað hver hann var.

Þriðji maðurinn sem sást ganga samhliða Ibrahim og félaga hans inn í flugstöðina er ófundinn. Hann lagði á flótta úr flugstöðinni og skildi þar eftir sig tösku með sprengju. „Í töskunni hans var öflugasta sprengjan,“ sagði belgíski ríkissaksóknarinn. „Skömmu eftir að sprengjueyðingarsveit hersins kom á vettvang sprakk taskan vegna mikils hristings á sprengjunni.“ Fyrri sprengjan sprakk kl. 07.58 í flugstöðinni hin síðari 37 sekúndum síðar.

Að kvöldi þriðjudags 22. mars leitaði lögreglan í íbúðarhúsi í Schaerbeek, úthverfi Brussel. Þangað fór hún að ábendingu leigubílstjóra sem ók mönnunum þremur í flugstöðina snemma á þriðjudagsmorgni. Fjölmiðlar segja að óskað hafi verið eftir leigubíl með miklu farangursrými á staðinn en fyrir misskilning hafi venjulegur bíll verið sendur. Farþegarnir þrír hafi verið með fimm ferðatöskur en bíllinn aðeins rúmað þrjár. Bílstjórinn sem nýtur vitnaverndar benti lögreglu á þetta.

Á blaðamannafundinum sagði Frederic Van Leeuw að við húsleitina hefðu fundist hvellhettur, taska full af nöglum og skrúfum, efni til sprengjugerðar t.d. 150 lítra af asetoni og um 15 kg af sprengjuefni.

Þá sagði ríkissaksóknarinn að í ruslastampi á flugvellinum hefði fundist tölva og á þar mætti heyra einskonar erfðaskrá sem Ibrahim El Bakraoui hefði tekið upp í flýti. Af orðum hans mætti ráða að höfundurinn hafi verið viti sínu fjær og ruglaður. „Ég veit ekki hvað ég á að gera,“ er haft eftir honum og einnig að hann vildi ekki lenda í „klefa við hliðina á honum“. Talið er að þar vísi hann til Salahs Abdeslams, hryðjuverkamanns sem handtekinn var föstudaginn 18. mars í Brussel. Hann situr nú í öryggisfangelsi í Bruges í Belgíu og neitar kröfu um framsal sitt til Parísar þar sem hann tók þátt í hryðjuverkaárás 13. nóvember 2015.

Ibrahim fæddist 9. október 1986 í Belgiu. Hann var 30. september 2011 dæmdur í 9 ára fangelsi fyrir tilraun til að stela peningum í gjaldmiðlasölu Western Union í Adolphe Max götu í Brussel 30. janúar 2011.

Khalid, bróðir Ibrahims, var dæmdur í fimm ára fangelsi árið 2012 fyrir þjófnað og ofbeldi.

Marokkómaðurinn Najim Laachraoui fæddist 18. maí 1999. Hann var einnig þekktur undir nafninu Soufiane Kayal og fór til Sýrlands í febrúar 2013. Hans var leitað vegna gruns um aðild að árásunum í París 13. nóvember 2015.

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …