
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sagði i neðri deild breska þingsins, þriðjudaginn 22. febrúar að Vladmir Pútin Rússlandsforseti væri með allherjarárás á Úkraínu á prjónunum.
„Í gærkvöldi braut Pútin forseti forkastanlega gegn Minsk-friðarsamkomulaginu… Í æsingarræðu hafnaði hann því að Úkraína stæði á gamalgrónum rótum sem ríki, fullyrti að þaðan stafaði bein ógn við öryggi Rússlands og þyrlaði upp fjölda annarra rangra ásakana og ósönnum óhróðri,“ sagði forsætisráðherrann.
Hann sagði að Pútin hefði nú sent að nýju her til innrásar á landi Úkraínu.
„Pútin er að skapa sér átyllu fyrir allsherjarárás. Við verðum að nú að búa okkur undir næstu skref sem Pútin kann hugsanlega að stíga. … 44 milljónir karla, kvenna og barna yrðu skotmörk allsherjar árásarstríðs án þess að unnt sé að réttlæta það á nokkurn hátt sé litið til fjarstæðukenndra og jafnvel dulspekilegra sjónarmiða sem Pútin kynnti í gærkvöldi.“
Boris Johnson kynnti þingheimi refsiaðgerðir sem stjórn hans hefði þegar ákveðið og undirbúið. Þær beindust gegn fimm rússneskum bönkum: Rossiya, Jenn Bank, General Bank, Promsvyazbank og Black Sea Bank og þremur auðmönnum: Boris Rotenberg, Igor Rotenberg og Gennadíj Timtsjenko. Allar eigur þeirra í Bretlandi yrðu frystar og þessum mönnum yrði bannað að koma til Bretlands auk þess sem breskum ríkisborgurum eða lögaðilum yrði bannað að eiga viðskipti við þá.
Boris Johnson sagði þetta fyrsta skrefið fleiri mundu fylgja. Með ákvörðunum sínum hefði Pútin stuðlað að enn meiri fátækt í Rússlandi. Rússar væru einangraðri en áður, enginn vildi koma nálægt þeim og ekki yrði unnt að efna til fjölþjóðlegra knattspyrnuleikja í árásarríkinu Rússlandi, vísaði hann þar til móts sem UEFA hefur skipulagt í St. Pétursborg.
Rússar stæðu að blóðugum og lamandi átökum við slavneska þjóð eins og þeir væru sjálfir. Þetta væri hörmuleg niðurstaða fyrir Pútin, vonandi tæki hann skref til baka frá brúninni og hæfi ekki allsherjar innrás.