Home / Fréttir / Boris Johnson tapar fyrir hæstarétti

Boris Johnson tapar fyrir hæstarétti

Fyrir framan Hæstarétt Bretlands eftir dómsuppkvaðningu.
Fyrir framan Hæstarétt Bretlands eftir dómsuppkvaðningu.

Hæstiréttur Bretlands komst þriðjudaginn 24. september að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Boris Johnsons forsætisráðherra að senda breska þingið heim hefði verið ólögmæt. Niðurstaðan var einróma hjá dómurunum 11 og henni verður ekki áfrýjað.

Dómararnir sögðu að tillaga Boris Johnsons til drottningarinnar um að senda þingið heim hefði verið „ólögmæt“ og „marklaus“ vegna þess að „áhrif hennar voru að trufla eða hindra þingið án skynsamlegrar réttlætingar við að gegna stjórnskipulegu hlutverki sínu“. Dómararnir ákváðu hins vegar að það væri „engin þörf fyrir dómstólinn að athuga hvort markmið forsætisráðherrans eða tilgangur hafi verið ólögmætur“. Það væri nú verkefni forseta neðri deildar og lávarðadeildar þingsins að kalla þingið saman. John Bercow, forseti neðri málstofunnar, boðaði í beinni útsendingu frá flötinni við þinghúsið til þingfundar að morgni miðvikudags 25. september.

Boris Johnson var staddur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York og sagði við fréttamenn þar að hann færi að fyrirmælum dómaranna þótt hann væri „algjörlega“ ósammála þeim.

„Ég tel niðurstöðuna ekki rétta en við förum eftir henni og auðvitað kemur þingið saman aftur,“ sagði ráðherrann. „Að mínu mati skiptir mestu að vinna áfram að því að brexit verði 31. október.“

Andstæðingar forsætisráðherrans kröfðust þess strax að hann segði af sér. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði að Johnson hefði sýnt „fyrirlitningu“ sína á lýðræði og réttarríkinu með því að senda þingið heim.

Jo Swinson, leiðtogi Frjálslynda lýðræðisflokksins, sagði að dómurinn staðfesti það sem þegar væri vitað: Boris Johnson væri óhæfur forsætisráðherra. „Hann villti um fyrir drottningunni og þaggaði á ólögmætan hátt niður í fulltrúum fólksins.“ Hún vill að þingið bindi alfarið enda á brexit.

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, sagði dóminn þann „merkilegasta og sögulegasta“ í manna minnum. Þingið ætti að neyða forsætisráðherrann til hætta færi hann ekki af fúsum og frjálsum vilja.

Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins og stofnandi UKIP, flokks sjálfstæðissinna, beindi spjótum sínum að Dominic Cummings, ráðgjafa Johnsons, sem sagður er hafa hvatt til þess að þingmenn yrðu sendir heim. Hann yrði að hverfa úr ráðgjafahópi forsætisráðherrans fyrir að standa að verstu „pólitísku ákvörðun allra tíma“.

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …