
Breski íhaldsþingmaðurinn Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri London, berst fyrir úrsögn Bretlands úr ESB. Hann er eindreginn í andstöðu sinni og sætir gagnrýni fyrir að hafa sagt í samtali við The Sunday Telegraph 15. maí: „Sannleikurinn er sá að undanfarin tvö þúsund ár hafa ýmsir einstaklingar og stofnanir reynt að endurheimta barnæsku Evrópu, hið gullna skeið friðar og farsældar undir Rómverjum, með því að sameina álfuna. Napóleon, Hitler, ýmsir aðrir hafa gert atlögu að þessu með hörmulegum afleiðingum. Með ESB er gerð tilraun til að ná þessu markmiði með öðrum aðferðum.“
Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Johnson fyrir orð hans er marskálkurinn Bramall lávarðar, fyrrverandi yfirmaður breska hersins. Hann segir að fullyrðingar Johnsons séu „einfaldlega hlægilegar“. Hilary Benn, talsmaður Verkamannaflokksins í utanríkismálunm, segir að Johnson hafi tapað „siðferðilegum áttavita“ sínum.
Íhaldsþingmaðurinn Iain Duncan Smith, fyrrverandi atvinnnu- og eftirlaunamálráðherra, segir hins vegar réttlætanlegt að draga það fram sem sé „sögulega samhliða“. Íhaldsmaðurinn Lamont lávarður, fyrrverandi fjármálaráðherra segir um Johnson: „Hann gerði ekki annað en benda á þá sögulegu staðreynd að frá tíma Rómverja, Karlamagnúsar og Napóleons hafa alls konar tilraunir verið gerðar til að ná yfirráðum í Evrópu.“
Í The Daily Telegraph mánudaginn 16. maí sagði Boris Johnson að auðvitað vildu auðmenn í hópi 100 efstu í bresku kauphöllinni vilja vera áfram í ESB, þeir yrðu bara ríkari og ríkari, létu innflutt vinnuafl halda rekstri sínum gangandi og nýttu ESB-reglur sem aðeins hinir voldugu skyldu sér í hag. Hinir sem væru á botninum kynntust aðeins lækkun eigin rauntekna. „Þetta er ein af ástæðunum fyrir því lítilli nýsköpun, framleiðni og lágum hagvexti innan ESB,“ sagði hann.
Í síðustu Comres-könnun fyrir breska blaðið The Independent kemur fram að 45% á móti 21% telja líklegra að Johnson „segi sannleikann um ESB“ en David Cameron, forsætisráðherra Breta. Í sömu könnun kemur fram 39% á móti 24% telja líklegra að úrasagnarsinnar segi sannleikann en aðildarsinnar.