Home / Fréttir / Boris Johnson segir „yfirgnæfandi líkur“ á að Pútín hafi ákveðið eiturefnaárásina

Boris Johnson segir „yfirgnæfandi líkur“ á að Pútín hafi ákveðið eiturefnaárásina

42946754_403

Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, segir „yfirgnæfandi líkur“ á Vladimir Pútín Rússlandsforseti hafi sjálfur gefið fyrirmæli um að eitrað yrði fyrir fyrrv. rússneskum njósnara í Salisbury á Suður-Englandi.

Fréttaskýrendur segja að ákvörðun utanríkisráðherrans um að skella skuldinni af taugaeitursárásinni beint á forseta Rússlands sýni að harkan aukist í orðaskiptum stjórnvalda í Moskvu og London.

Boris Johnson sagði: „Ágreiningur okkar er við Kremlverja Pútíns og vegna ákvörðunar hans og við teljum yfirgnæfandi líkur á að það hafi verið ákvörðun hans að beita taugaeitri beint á götum Bretlands, á götum Evrópu í fyrsta sinn síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Þessa vegna greinir okkur á við Rússa.“

Viðbrögð við orðum Johnsons bárust strax frá Kreml, þeim var hafnað og þau sögð „yfirgengileg og óafsakanleg“.

Dmitríj Perskov, talsmaður Pútíns, sagði við rússneskar fréttastofur að orð Johnsons samrýmdust ekki „diplómatískum samskiptum“.

Johnson lýsti skoðun sinni föstudaginn 16. mars, daginn eftir að Sergei Lavrov, utnanríkisráðherra Rússlands, sakaði Gavin Williamson, varnarmálaráðherra  Breta, um menntunarleysi eftir að hann sagði við Moskvumenn að „halda sér saman“.

Lavrov sagði einnig að Rússar mundu reka breska sendiráðsmenn úr landi til að svara í sömu mynt eftir að 23 Rússar voru reknir frá Bretlandi.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, benti Rússum á að „vanmeta ekki staðfestu og einingu“ bandalagsins. Hann áréttaði einnig að að NATO teldi „enga ástæðu“ til að efast um réttmæti þeirrar niðurstöðu Breta að Moskvumenn bæru ábyrgð á eiturefnaárásinni á Sergei Skripal, fyrrv. njósnara, og dóttur hans.

Innan breska Verkamannaflokksins vex gagnrýni á Jeremy Corbyn flokksleiðtoga bæði innan þingflokksins og meðal þeirra sem sitja í skuggaráðuneyti hans eftir að Sir Keir Starmer, skugga-Brexit-ráðherra, studdi afstöðu Theresu May í eiturefnamálinu án fyrirvara.

Jeremy Corbyn hefur til þessa látið undir höfuð leggjast að taka heilshugar undir þá skoðun May að Rússar séu sekir um árásina og jókst reiði í hans garð fimmtudaginn 15. mars þegar hann lét að því liggja  að „hópar á borð við mafíuna“ hefðu getað gert árásina.

Nokkrir í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins hafa gert ágreining við Corbyn vegna þessa. Sir Keir er sá síðasti sem það gerði þegar hann lýsti fyrirvaralausum stuðningi við afstöðu May og að forsætisáðherrann hefði komist að „réttri niðurstöðu“.

Sir Keir sagði við BBC: „Ég tel mjög mikilvægt að við styðjum aðgerðirnar sem forsætisráðherrann kynnti á miðvikudaginn sem svar við þessari tilefnislausu árás.“

Forsetar Bandaríkjanna og Frakklands, kanslari Þýskalands og breski forsætisráðherrann gáfu út sameiginlega yfirlýsingu fimmtudaginn 15. mars þar sem sagði að ekki væri fyrir hendi „nein önnur trúverðug skýring“ en að Rússar bæru ábyrgð á árásinni.

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …