Home / Fréttir / Boris Johnson segir af sér og segir Brexit-drauminn vera „að deyja“

Boris Johnson segir af sér og segir Brexit-drauminn vera „að deyja“

blower_10-7-18-xlarge

Afsagnir tveggja ráðherra í ríkisstjórn Theresu May í Bretlandi lágu fyrir mánudaginn 9. júlí: Boris Johnsons utanríkisráðherra og Davids Davis, Brexit-ráðherra. Báðir vilja Bretland úr ESB en hvorugur sættir sig við samningsafstöðu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var föstudaginn 6. júlí.

Ron Watson, stjórnmálaskýrandi BBC, segir þetta verstu stjórnmálakreppu í Bretlandi frá því í síðari heimsstyrjöldinni: stjórnarflokkurinn sé klofinn og ríkisstjórnin eins og höfuðlaus her gagnvart ESB og öðrum þjóðum.

David Davis sagði að kvöldi sunnudags 8. júli að hann treysti sér ekki  til að fylgja fram stefnu ríkisstjórnarinnar. Boris Johnson birti síðdegis mánudaginn 9. júlí bréf til Theresu May.

Í bréfinu segir Johnson að draumurinn sem birtist í niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir tveimur árum um úrsögn úr ESB, Brexit, sé „að deyja, kæfður af óþörfum sjálfsefa“. Mikilvægum ákvörðunum hafi verið ýtt á undan sér innan ríkisstjórnarinnar, til dæmis undirbúningi undir úrsögn án samningar við ESB. Af þessum sökum virðist Bretar á leið til „hálfshugar“ Brexit þar sem stór hluti breska hagkerfisins yrði enn bundinn innan ESB-kerfisins án þess að Bretar hefðu nokkra stjórn á því kerfi.

Nú virðist upphafstilboð Breta í viðræðunum við ESB bera með sér að Bretar hafi ekki einu sinni leyfi til að setja sér eigin lög.

Johnson rifjar upp dæmi af fyrri fundi ríkisstjórnarinnar þar sem hann hafi mótmælt því að ekki væri unnt að bæta umferðaröryggi, einkum til öryggis fyrir konur á reiðhjólum, af því að ESB hefði ekki sett lög um efnið. Ríki sem væri háð ESB-lagasetningu á þennan hátt væri að sínu mati varla unnt að kalla sjálfstætt.

Breska ríkisstjórnin hefði áratugum saman mótmælt þessara eða hinni tilskipun ESB vegna þess að hún væri of íþyngjandi eða vanhugsuð. Nú séu Bretar í þeirri fáránlegu stöðu að þeir verði að samþykkja mikið magn af einmitt slíkum ESB-lögum án þess að breyta kommu vegna þess að það sé nauðsynlegt fyrir efnahag þeirra og þegar þeir ættu þess engan kost að hafa áhrif á þessi lög við gerð þeirra.

„Í þessu tilliti erum við sannarlega á leið til þess að hljóta stöðu nýlendu – og mörgum verður erfitt að sjá efnahagslegan eða pólitískan ávinning af þessari sérstöku skipan,“ segir Boris Johnson í bréinu og einnig:

„Jafnframt er ljóst að með því að afsala okkur stjórn á eigin regluverki varðandi vörur og landbúnaðarvörur (auk margs annars) verður enn erfiðara en ella fyrir okkur að gera samninga um frjáls viðskipti. Við blasir svo hindrunin sem felst í því að þurfa að færa rök fyrir óhagkvæmu og óframkvæmanlegu tollafyrirkomulagi sem þekkist hvergi.

Enn annað er þó meira áhyggjuefni, að þetta sé upphafstilboð okkar. Þetta er í raun það sem við sjáum fyrir okkur sem lokastöðu Bretlands – áður en hinn aðilinn hefur gert gagntilboð sitt. Þetta er eins og við sendum þá sem eru í fylkingarbrjósti fram til orrustu með hvítan fána á lofti. Satt að segja vakti það áhyggjur hjá mér þegar ég leit á föstudagsskjalið að það kynni að verða gefið eftir í útlendingamálum eða við yrðum að lokum að borga fyrir aðgang að innri markaðnum.

Á föstudaginn viðurkenndi ég að of fáir væru sömu skoðunar og ég til að við hefðum betur og óskaði þér til hamingju með að hafa að minnsta kosti fengið ríkisstjórnarsamþykkt fyrir framtíðarstefnunni. Ég sagði þá að ríkisstjórnin hefði nú ljóð til að syngja. Vandinn er sá að ég æft mig á orðunum um helgina og fundið að þau festast í hálsinum. Við verðum að bera sameiginlega ábyrgð. Þar sem ég get ekki samvisku minnar vegna barist fyrir þessum tillögum hef ég því miður komist að þeirri niðurstöðu að ég verð að biðjast lausnar.“

Í tilefni af afsögnum Davis og Johnsons sagði Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, á Twitter:

„Stjórnmálamenn koma og og fara en ekki vandamálin sem hafa skapað fyrir fólkið. Ég harma aðeins að Brexit-hugmyndin hverfur ekki með Davis og Johnson. En … hver veit?“

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …