Home / Fréttir / Boris Johnson næsti forsætisráðherra Breta

Boris Johnson næsti forsætisráðherra Breta

Boris Johnson.
Boris Johnson.

Boris Johnson er nýr leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Þetta var niðurstaða kosningar meðal flokksmanna milli Johnsons og Jeremys Hunts utanríkisráðherra. Úrslitin voru kynnt þriðjudaginn 23. júlí. Johnson fékk

92.153. (66,4%) atkvæði en Hunt 46.656 (34%).

Boris Johnson verður næsti forsætisráðherra Breta og tekur við af Theresu May miðvikudaginn 24. júlí.

Í sigurræðu sinni sagði Johnson, fyrrv. borgarstjóri London og fyrrv. utanríkisráðherra, að hann mundi framkvæma brexit, það er útgöngu Breta úr ESB, sameina þjóðina og sigra Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins.

Úrslitin voru kynnt í ráðstefnuhúsi sem kennt er við Elísabetu II. Bretadrottningu og stendur skammt frá breska þinghúsinu. Í sigurræðu sinni þar hét Johnson því að endurvekja þjóðlífið:

„Við ætlum að hafa brexit að baki 31. október og nýta okkur með nýjum krafti öll tækifærin sem það gefur okkur. Við ætlum enn einu sinni að hafa trú á sjálfum okkur og við verðum eins og risi sem rís úr móki og hristir af sér hlekki eigin vanmáttarkenndar og neikvæðni.“

Johnson færði Theresu May þakkir og sagði það hafa verið sérréttindi að sitja í ríkisstjórn hennar sem hann gerði þar til hann sagði af sér vegna brexit. May óskaði Johnson til hamingju og hét honum fullum stuðningi sem óbreyttur þingmaður.

Hunt sagðist „mjög vonsvikinn“ en að Johnson mundi skila góðu verki. „Það var alla tíð á brattann að sækja fyrir okkur vegna þess að á sínum tíma greiddi ég atkvæði með aðild [að ESB] og á þessum tímapunkti nú vilja margir flokksmenn fá einhvern sem greiddi atkvæði með brexit í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þegar litið er til baka sést að þetta var hindrun sem okkur tókst aldrei að ryðja úr vegi.“

Tæplega 160.000 flokksmenn höfðu kosningarétt og kosningaþátttaka var 87,4%. Hlutur Johnsons – 66,4% – var aðeins lægri en hlutur Davids Camerons í leiðtogakjöri íhaldsmanna árið 2005, 67,6%.

Kjördæmi Johnsons er Uxbridge. Allt frá upphafi leiðtogakjörsins var hann talinn sigurvegari í því.

Margir kunnir forystumenn Íhaldsflokksins segjast ekki vilja taka sæti í stjórn Johnsons. Þar má nefna Philip Hammond fjármálaráðherra, David Gauke dómsmálaráðherra, Rory Stewart þróunarmálaráðherra og Anne Milton menntamálaráðherra.

Í neðri deild breska þingsins verða nú áfram átök um hvernig staðið skuli að brexit. Meirihluti þingmanna hefur hvað eftir annað áréttað vilja sinn um að samið verði um skilnað ESB og Bretlands þótt meirihlutinn hafi ekki stutt skilnaðarsamninginn sem Theresa May gerði. Boris Johnson vill brexit með eða án samnings við ESB. Hann segir samninginn sem kenndur er við May dauðan.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …