Home / Fréttir / Boris heimsækir hermenn í Eistlandi og ber lof á NATO

Boris heimsækir hermenn í Eistlandi og ber lof á NATO

Boris Johnson skammtar breskum hermönnum í Eistlandi jólamatinn.
Boris Johnson skammtar breskum hermönnum í Eistlandi jólamatinn.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. fór til Eistlands laugardaginn 21. desember og hitti 850 breska hermenn sem eru þar við störf undir merkjum NATO. Í samtali við ERR-fréttastofuna í Eistlandi sagði hann að árangurinn af starfi NATO sýndi að ekkert jafnaðist á við bandalagið undanfarin 500 ár og framtíð þess væri „mjög björt“.

Forsætisráðherrann sagði að vonandi tækist að bæta samskipti Breta og Rússa en „hræðileg vandamál“ settu þar strik í reikninginn. Hann sagði:

„Ég er eins og margir í Vestur-Evrópu sem alltaf vona að unnt sé að bæta samskiptin við Rússa. Við vonum þetta statt og stöðugt. Við viljum að viðskiptasambandið batni, að viðskiptin aukist en vonbrigðin eru alltaf svo mikil af því að við glímum við hræðileg vandamál.“

Í því sambandi nefndi Johnson atvikið í Salisbury á Suður-Englandi 4. mars 2018 þegar fyrrverandi rússneskur gagnnjósnari, Sergei Skripal, og Yulia, dóttir hans, fundust meðvitundarlaus á garðbekk .

Síðar kom í ljós að á þau hafði verið ráðist með eiturefni sovéska hersins, Novitsjok. Stjórnvöld í Bretlandi og á Vesturlöndum sökuðu ráðamenn í Moskvu um að hafa staðið að baki árásinni sem þeir neituðu.

Skripal-feðginin hafa bæði náði sér. Tveir Bretar urðu einnig veikir af slysa-snertingu við eitrið í júní 2018. Annar þeirra, Dawn Sturgess, lést.

Boris Johnson ávarpar breska hermenn í Eistlandi.
Boris Johnson ávarpar breska hermenn í Eistlandi.

Boris Johnson ávarpaði bresku hermennina í Tapa-herstöðinni. Hann sagði störf þeirra sýna svart á hvítu að NATO skilaði sínu og að Bretar stæðu heilshugar að baki bandalaginu.

Johnson sagði hugmyndina að baki NATO „mjög, mjög einfalda. Hún er allir fyrir einn og einn fyrir alla. Í því felst að þegar eistneska vinaþjóðin vill stuðning breska hersins er hann veittur með því að senda liðsafla á vettvang.“

Forsætisráðherrann (55 ára) sagði einnig:

„Og fyrir mig er ótrúlegt að koma til Eistlands með það í huga að þegar ég var barn, raunar þegar ég var á ykkar aldri, var Eistland hluti Sovétríkjanna og við leggjum nú okkar af mörkum til að vernda Eistland og tryggja öryggi þess. Það er stórkostlegt og snertir djúpt mann af minni kynslóð. Innilegar þakkir fyrir allt sem þið gerið. Gleðileg jól!“

Fundur með Ratas

Boris Johnson hitti einnig Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands. Þeir ræddu náið samstarf Breta og Eistlendinga í öryggis- og varnarmálum.

Ratas lagði áherslu á að þrátt fyrir brexit ættu Bretar að eiga áfram náið samstarf við ESB á öllum sviðum en þó sérstaklega á sviði utanríkis- öryggis og varnarmála auk efnahags- og menntamála.

Forsætisráðherrarnir ræddu einnig samstarf um stafræn og nettengd viðfangsefni. Ratas sagðist hafa boðið Johnson á leiðtogafund um stafræn málefni haustið 2020 og á fund forsætisráðherra Norðurlandanna, Eystrasaltslandanna og Írlands fyrir þann leiðtogafund. Þar væri ætlunin að ræða samstarf um lausnir varðandi netvæðingu evrópskra heilbrigðiskerfa og umsýslu við heilbrigðisgagnagrunna.

 

 

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …