Home / Fréttir / Borgarstjórn Hamborgar sætir ámæli fyrir óeirðir vinstriöfgamanna

Borgarstjórn Hamborgar sætir ámæli fyrir óeirðir vinstriöfgamanna

 

Svona var umhorfs á götum Hamborgar eftir G20-mótmælin.
Svona var umhorfs á götum Hamborgar eftir G20-mótmælin.

Þýska ríkisstjórnin hefur farið þess á leit við við önnur Evrópuríki og ESB að þau aðstoði hana við að leita uppi mótmælendur sem brutu og brömluðu eigur annarra eða réðust á lögreglu í Hamborg í tengslum við leiðtogafund G 20-ríkjanna í lok fyrri viku. Nú hefur 51 frá sjö löndum verið handtekinn grunaður um aðild að ólögmætum mótmælaaðgerðum.

Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, sendi mánudaginn 10. júlí bréf til ráðherra í ESB-ríkjunum og bað þá um að knýja á um að orðið yrði við tilmælum þýsku lögreglunnar um aðstoð í tengslum við G20-mótmælin en þátttakendur í þeim brutust inn í verslanir, efndu markvisst til átaka við lögreglu, kveiktu í bifreiðum og bálköstum í miðborg Hamborgar. Maas hvatti einnig til þess að ráðherrarnir létu lögreglulið sín framkvæma handtökur á grundvelli óska um það frá Þýskalandi með vísan til evrópsku handtökutilskipunarinnar.

Ráðherrann sagði að unnið væri að því að skoða og greina fjölda ljósmynda og myndskeiða til að átta sig á því hverjir hefðu staðið að óhæfuverkunum.

Milli 20 og 30 þúsund lögreglumenn voru kallaðir á vettvang til að halda aftur af ribböldunum í Hamborg. Auk Þjóðverja komu aðgerðasinnar frá Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Hollandi, Rússlandi, Sviss og Austurríki.

Tæplega 500 lögreglumenn særðust í átökum á götum Hamborgar, nokkrir alvarlega. Í Hamburger Abendblatt segir að á þriðja hundruð mótmælendur hafi leitað til sjúkrahúsa í Hamborg vegna meiðsla og í blaðinu segir einnig að gert hafi verið að sárum margra á götum úti.

Borgarstjóri Hamborgar er jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz og nýtur hann stuðnings græningja. Andstæðingar borgarstjórans meðal kristilegra demókrata (CDU) krefjast afsagnar hans enda hafi hann leyft vinstrisinnuðum öfgamönnum að búa um sig í Hamborg.

Þá er bent á að þess hefði mátt vænta að til átaka kæmi í Hamborg eftir að vinstrisinnuðu öfgamennirnir sendu út boð til samherja sinna annars staðar undir slagorðinu: „Velkomin til helvítis!“

Harka færðist í átökin í Hamborg eftir mótmæli um 12.000 manns fimmtudaginn 6. júlí. Lögreglan reyndi þá að knýja Svartstakkanna til að sýna andlit sín en þýsk lög banna mönnum að hylja andlit sitt á almannafæri.

Kristilegir demókratar hafa krafist þess að lögregla ráðist  inn í byggingu sem nefnd er Rote Flora í Hamborg. Þetta er gamalt leikhús sem er fundarstaður fyrir mótmælendur og þar sem þeir geta skipulagt aðgerðir sínar.

Átökin í Hamborg hafa dregið athygli að þeirri staðreynd að undir stjórn jafnaðarmanna og græningja hefur orðið til einskonar griðastaður fyrir vinstriöfgamenn. Umræður um þá hafa leitt til samanburðar til þeirra annars vegar og hægriöfgamanna.

Peter Huth, aðalritstjóri Die Welt am Sonntag. spurði lesendur sína sunnudaginn 9. júlí hvað þeir héldu að sagt yrði ef yfirvöld byðu hægriöfgamönnum að búa um sig í gamalli, ónotaðri byggingu. Þeir gætu hengt þar upp skilti með slagorðum eins og Deutschland den Deutschen Þýskaland fyrir Þjóðverja, og Ausländer raus Burt með útlendinga! Þeir gætu komið á fót prentsmiðju til að verða sjálfbjarga með áróðursblöð, netþjónn yrði opnaður til að dreifa gyðingahatri. Á jarðhæðinni yrði aðsetur Óðins-sellu og liðsmannaverslun þar sem kaupa mætti kylfur, keðjur og bæklinga um gerð Molotov-kokkteila.

Þeir segðust vinna að „sjálfstæðu verkefni“ og bentu á fjölda málþinga, fyrirlestraraðir og samstöðufundi auk þess að sækja um styrk til borgaryfirvalda. Á afmælisdegi Hitlers efndu þeir til hátíðarfundar og byðu þangað hægriöfgasinnuðum félögum í öðrum Evrópulöndum. Kastað yrði grjóti í sjúkrabíla á götum úti. Af hörku yrði ráðist á lögregluna.

„Óhugsandi? Já, af því að hér eru hægriöfgamenn á ferð,“ segir aðalritstjórinn.

Hann segir að lýsing sín hér að ofan sýni nákvæmlega hvað vinstriöfgamenn komist upp með í Berlín og Hamborg. Það sem hafi gerst í Hamborg í tengslum við G20-fundinn sé afleiðing þess að ekki sé tekið á vinstriöfgamönnum á viðeigandi hátt heldur njóti þeir sérréttinda.

Í Hamborg hafi þetta gengið svo langt að eftir aðra átakanóttina á götum borgarinnar hafi þrír borgarfulltrúar græningja sagt að hætta yrði leiðtogafundinum. Þessi afstaða fólks í meirihluta borgarstjórnarinnar sýni best að hann ráði ekkert við stjórn borgarinnar, borgarstjórinn verði því að víkja. Í orðunum felist að hryðjuverk á götum borgarinnar séu eðlileg afleiðing þess að æðstu ráðamenn 20 ríkja heims komi saman til að ræða alþjóðamál.

Í lok greinar sinnar segir aðalritstjóri Die Welt am Sonntag að finna megi hægrisinnaða hryðjuverkamenn sem ráðist á heimili fyrir flótta- og farandfólk. Þar séu þó einnig vinstrisinnaðir hryðjuverkamenn sem auðveldara sé að fylgjast með. Menn þurfi bara vilja að gera það.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …