Home / Fréttir / Bolton fer hörðum orðum um Alþjóðasakamáladómstólinn

Bolton fer hörðum orðum um Alþjóðasakamáladómstólinn

index

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, fór hörðum orðum um Alþjóðasakamáladómstólinn (ICC) í Haag í ræðu í Washington mánudaginn 10. september.

Dómstóllinn fjallar nú um mál gegn bandarískum hermönnum sem sakaðir eru um að hafa pyntað menn grunaða um hryðjuverk. Þeir sátu í leynilegum fangelsum í Afganistan.

Bolton segir að líta megi á ICC sem „ógn við sjálfstæði Bandaríkjanna og þjóðaröryggi þeirra“. Hann hótar að dómararnir verði látnir sæta refsingu verði Bandaríkjamenn dæmdir sekir.

„Við viljum ekki eiga samstarf við ICC. Við viljum ekki veita ICC neins konar aðstoð. Við viljum ekki gerast aðilar að ICC. Við viljum að ICC deyi drottni sínum. Í okkar auga er ICC nú þegar dauður,“ sagði Bolton.

Bill Clinton Bandaríkjaforseti skrifaði árið 2000 undir stofnsáttmála ICC. Hann lagði hann þó aldrei fyrir Bandaríkjaþing til staðfestingar. George W. Bush Bandaríkjaforseti afturkallaði undirskriftina árið 2002. Þannig stendur málið enn þann dag í dag. Kínverjar og Indverjar hafa aldrei samþykkt aðild að ICC.

Bolton gerði lítið úr tilraunum dómstólsins til að beita Bandaríkin „yfirþjóðlegu valdi“ og sagði hann bitlaust vopn í þágu réttvísinnar. „Harðstjórar sögunnar láta ekki draumóra þjóðaréttar eins og ICC aftra sér,“ sagði Bolton í ræðu sinni hjá hugveitunni Federalist Society. „Hugmyndin um að fjarlægir skriffinnar og hempuklæddir dómarar hræði menn eins og Saddam Hussein, Hitler, Stalin og Gaddafi er fráleit, jafnvel grimmdarleg.“

Bolton tilkynnti einnig að Washington-skrifstofu Palestínsku frelsishreyfingarinnar (Palestine Liberation Organization (PLO)) yrði lokað. Það mætti að hluta rekja til þess að palestínskir ráðamenn hefðu hvatt ICC til að rannsaka ákvaðanir Ísraela um að fjölga landnemabyggðum á Vesturbakkanum.

„Þessir menn ákveðið að skipa sér á rangan stað í sögunni með því að slá verndarhendi yfir glæpamenn og eyðileggja tveggja-ríkja-lausnina,“ sagði  Saeb Erekat, aðalsamningamaður Palestínumanna. „Ég sagði við þá ef þið hafið áhyggjur af dómstólum skulið þið hætta að stuðla að glæpum og leggja blessun yfir þá.“

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …