
Ksenia Sobstjak, dóttir fyrrverandi borgarstjóra St. Pétursborgar, undirbýr framboð í rússnesku forsetakosningunum í mars 2018 og hefur fengið fyrrverandi ráðgjafa Boris Jeltsíns í forsetakosningunum 1996 til að aðstoða sig.
Í franska blaðinu Le Monde segir miðvikudaginn 25. október að Ksenia Sobstjak sé ekki aðeins blaðamaður, hún sé einnig dóttir Anatolis Sobstjaks, fyrsta kjörna borgarstjórans í St. Pétursborg og pólitísks lærimeistara Vladimírs Pútíns. Hún er einnig og fyrst og síðast fulltrúi kynslóða frá tíunda áratugnum, það er þeirra sem hafa vaxið úr grasi eftir fall Rússlands. Margir af þessari kynslóð hafa auðgast mikið aðrir draga rétt fram lífið.
Ksenia Sobtsjak sem verður 36 ára innan fárra daga staðfesti þriðjudaginn 24. október áform sín um framboð til forseta í mars 2018. Meirihluti Rússa lítur á hana sem fulltrúa ríka fólksins. Hún gerði atlögu að þessu viðhorfi til sín þegar hún stóð ein á litlu sviði leikhúss í Moskvu fyrir framan troðfullan sal af blaðamönnum. Hún var spurð um meðallaun í Rússlandi og svaraði: „35.000 rúblur“ (um 60.000 kr.) og sagði síðan: „Get ég ekki boðið mig fram af því að ég er rík? Þessi hugsanagangur hefur þegar komið okkur á vonarvöl. Mestu skiptir að þeir fátæku verði ríkari.“
Ksenia Sobstjak er fyrrverandi stjarna í veruleikaþætti í sjónvarpi, hún var rekin úr honum. Á blaðamannafundinum kynnti hún sem kosningastjóra sinn Igor Malastjenko, sem stofnaði á sínum tíma einkasjónvarpsstöðina NTV sem síðar var hirt af Kremlverjum. Hann stjórnaði kosningabaráttu Boris Jeltsíns þegar hann var kjörinn forseti árið 1996 og notaði slagorðið Kjóstu eða tapaðu! sem Bill Clinton hafði fyrst kynnt til sögunnar árið 1992 Choose or Loose!
Blaðamenn komu í litla leikhúsið til að heyra hvernig Ksenia Sobtsjak gagnrýndi stjórnartíð Vladimírs Pútíns. „Ég ræðst ekki á Vladimír Pútín persónulega,“ sagði hún. „Í augum sumra er hann harðstjóri og einræðisherra, aðrir segja hann hafa endurreist Rússland. Í mínum huga er Pútín maðurinn sem aðstoðaði föður minn í erfiðleikum hans, hann bjargaði í raun lífi hans, ég man eftir því.“ Svo bar við undir lok tíunda áratugarins þegar ástandið var orðið mjög slæmt í St. Pétursborg sætti Sobtsjak borgarstjóri ásökunum um spillingu og varð að segja af sér embætti. Hann fékk síðar hjartaáfall og var fluttur til Parísar í sjúkraflugvél að fyrirmælum Vladimírs Pútíns.
„Þegar ég lít á Pútín sem stjórnmálamann,“ sagði Ksenia Sobtsjak „hefur hann gert margt sem gleður mig ekki. Ég er andvíg spillingarkerfinu sem hefur dafnað öll árin 18 sem Pútín hefur verið við völd. Ég vil brjóta það á bak aftur. Afleiðing stjórnarhátta þessara átján ára er að við höfum ekki fengið að ganga til raunverulegra kosninga. Og að dómskerfið er ekki heldur sjálfstætt má rekja til áranna átján.“
Hún gagnrýnir einnig framgöngu Rússa gagnvart Úkraínumönnum og innlimun Krímskaga. „Sé litið á málið frá sjónarhóli alþjóðalaga er Krím hluti af Úkraínu, punktur. Við gengum á bak orða okkar, við brutum gegn samkomulaginu í Búdapest frá 1994.“ Samkomulagið var gert nokkru eftir fall Sovétríkjanna og þar samþykktu Úkraínumenn að eyða kjarnorkuvopnum sínum frá sovéska tímanum gegn skuldbindingum annarra þjóða, þar á meðal Rússa, um að ábyrgjast öryggi og sjálfstæði Úkraínu.
Ksenia Sobtsjak ætlar að opna kosningaskrifstofur í stærstu borgum Rússlands, Hún hefur ekki kynnt neina kosningastefnu en vill sameina óánægjuraddir. Hún sagði aldrei mundu þiggja fé frá Kremlverjum en margir í viðskiptalífinu vildu breytingar og mundu þeir styðja sig.
Ákveði Alexei Navalníj, helsti andstæðingur Vladimírs Pútíns, að gefa kost á sér í forsetakosningunum ætlar Ksenia Sobtsjak að draga sig í hlé. Almennt er talið líklegt að Navalníj bjóði sig fram. Meðal þeirra sem hvetja Navalníj til framboðs er auðmaðurinn Mikhaïl Khodorkovski sem er búsettur í London og sendi frá sér stuðningsyfirlýsingu þess efnis þriðjudaginn 24. október.
Heimild: Le Monde