Home / Fréttir / Boða danska herdróna til eftirlits við Ísland og á norðurslóðum

Boða danska herdróna til eftirlits við Ísland og á norðurslóðum

Danska ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja 16 milljörðum DSK (319 milljörðum ISK) til að efla hernaðarlegan viðbúnað á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi. Ætlunin er að verja 2,7 milljörðum DSK (54 milljörðum ISK) til kaupa á drónum til eftirlits og gagnaöflunar, einkum frá Grænlandi að sögn Högna Hoydals, utanríkisráðherra Færeyinga.

Með drónunum verður unnt að fylgjast með auknum borgaralegum og hernaðarlegum umsvifum fyrir norðan og nálægt Íslandi en danski herinn annast öryggisgæslu á Grænlandi og Færeyjum og hafsvæðin umhverfis löndin.

Í frétt grænlenska ríkisútvarpsins KNR um þessa ákvörðun sagði að í henni fælist einnig að fjölga ætti tundurskeytum og auka loftvernd fyrir skip danska sjóhersins á norðurslóðum. Þau koma reglulega til hafnar í Reykjavík og er náið samstarf milli Landhelgisgæslu Íslands og sjóhersins.

Þá segir einnig í frétt KNR að heimastjórnir Grænlands og Færeyja hafi átt hlut að töku ákvörðunarinnar um útgjöldin í samvinnu við fulltrúa meirihlutaflokkanna á danska þjóðþinginu.

Í Færeyjum er unnið að því að endurgera ratsjárstöð NATO skammt frá Þórshöfn sem var lokað árið 2007.

Hluti fjárins rennur til að efla almannavarnaþjálfun í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði) á vesturströnd Grænlands. Um er að ræða fræðslu- og þjálfunarmiðstöð fyrir Grænlendinga, (d. Arktisk Basisuddannelse) og eru nemendur frá Grænlandi styrktir til námsins.

Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Dana, sagði fimmtudaginn 18. janúar þegar ákvörðun um þessa ráðstöfun var kynnt að framvegis yrðu allar þjóðir í danska konungsríkinu að axla meiri ábyrgð vegna öryggis á öllu svæðinu sem hér um ræðir. Í því fælist að meiri krafta yrði að nýta á norðurslóðum (e. Arctic) og á Norður-Atlantshafi.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …