Home / Fréttir / Bandaríski flotamálaráðherrann boðar aukin norðurslóðaumsvif

Bandaríski flotamálaráðherrann boðar aukin norðurslóðaumsvif

Kenneth Braithwaite.
Kenneth Braithwaite.

Kenneth Braithwaite, flotamálaráðherra Bandaríkjanna, sagði miðvikudaginn 6. janúar að bandaríski flotinn hæfi reglulegar siglingar á svæðum sem Rússar gerðu tilkall til að stjórna á Norður-Íshafi þar sem ís hopaði jafnt og þétt. Á þennan hátt yrði brugðist við ásókn Rússa til að stjórna siglingum á norðurslóðum.

„Menn munu að nýju sjá fleiri reglulegar siglingar skipa flotans fyrir norðan heimskautsbaug,“ sagði Kenneth Braithwaite þegar hann ræddi við blaðamenn á fjarfundi. Ráðherrann lætur af embætti við stjórnarskiptin í Washington 20. janúar 2021.

Til blaðamannafundarins var efnt til að kynna nýja norðurslóðastefnu (e. Arctic Strategy) flotans sem birt er í kjölfar „þriggja-greina“ stefnuskýrslu flotans, landgönguliðsins og strandgæslunnar í desember 2020. Þar er boðað að bandarísk skip láti meira að sér kveða frá degi til dags á öllum heimshöfum til að sporna gegn yfirráðastefnu Kínverja og Rússa.

Braithwaite sagði að Bandaríkjamenn yrðu að „láta meira að sér kveða“ á norðurslóðum (e. Arctic) á næstu árum til að bregðast við tilkalli Rússa og í minna mæli Kínverja til viðurkenningar á rétti til afskipta af siglingum.

Flotamálaráðherrann sagði að það mætti að sumu leyti líkja þróuninni í Norður-Íshafi við ástandið í Suður-Kyrrahafi þegar litið væri til siglingafrelsis og svigrúms til aðgerða á alþjóðasiglingaleiðum. Bandaríkjamenn vildu ekki láta takmarka rétt sinn.

Af þessum sökum færu bandarísk herskip inn á Barentshaf og í áttina að Kólaskaga. Þau hefðu rétt til að sigla um þetta svæði og þann rétt yrði að vernda. Þegar fleiri siglingaleiðir opnuðust við að ísinn hopaði ætlaði bandaríski flotinn að tryggja eigin rétt og frelsi samstarfsþjóða Bandaríkjanna til siglinga.

Rússneski Norðurflotinn, öflugasti herfloti Rússa, á heimahafnir á Kólaskaganum meðal annars fyrir risastóra kjarnorkukafbáta. Rússar vilja halda herskipum annarra þjóða frá Barentshafi og draga útlínur brjóstvarnar Norðurflotans allt suður til Íslands.

Til að skýra betur hvað hann ætti við með samanburðinum milli lögbrota Kínverja á Suður-Kínahafi og athafna Rússa á Norður-Íshafi sagði Braithwaite að bæði ríkin teldu ákveðin hafsvæði falla undir forræði þeirra. Á hinn bóginn væri þarna um alþjóðleg hafsvæði að ræða á grundvelli viðurkenningar alþjóðasamfélagsins og bandaríski flotinn mundi nýta sér rétt sinn í samræmi við það. Á þessum grunni mundi flotinn láta meira að sér kveða. Bandaríkjamönnum væri það beinlínis skylt í ljósi réttar síns og vegna þess hve þeir ættu öflugan herflota.

Í nýju norðurslóðaskýrslu bandaríska flotans segir að Rússar fjárfesti nú mikið til að treysta eigin varnir og efla atvinnulíf á norðurslóðum. Þetta leiði til margþættrar hervæðingar í norðurhluta Rússlands. Herafli Rússa stundi „stigmagnandi og ógagnsæjar“ aðgerðir og settar séu „ólöglegar reglur um skipaumferð á Norðursiglingaleiðinni“ sem dragi úr öryggi á svæðinu.

Bandaríkjamenn hafa áratugum saman treyst á kjarnorkukafbáta til að stunda hljóðlausar eftirlitsferðir undir ísbreiðu Norður-Íshafsins. Braithwaite segir að kjarnorkukafbátarnir gegni áfram mikilvægu hlutverki þótt ferðum herskipa fjölgi á norðurslóðum. Þeir ætli að fjölga kafbátum sínum í 70 til 80 á næstu árum, nú eru þeir 48.

Bandaríkjastjórn ákvað sumarið 2020 að bandarískum ísbrjótum yrði fjölgað en einn eða tveir eru siglingahæfir um þessar mundir, þeir eru gamlir og standast engan samanburð við öflugan ísbrjótaflota Rússa. Hugmyndum hefur verið hreyft um að leigja ísbrjóta af Finnum eða öðrum þar til bandarískar skipasmíðastöðvar hafi smíðað nýjan flota sex kjarnorkuknúinna ísbrjóta.

Braithwaite segir að Kínverjar smíði nú ísbrjóta af meiri krafti en sé að finna hjá Bandaríkjamönnum.

Í norðurslóðaskýrslunni er bent á að Kínverjar leggi nú áherslu á að smíða flutningaskip til siglinga í Norður-Íshafi. Þar beri hæst skip til gasflutninga og ísbrjóta auk hafnargerðar í því skyni að auðvelda ferðir eftir Norðursiglingaleiðinni. Þá er bent á að líklegt sé að Kínverjar verji á komandi áratugum sífellt meiri fjármunum til að efla úthafsveiðiflota, efnahagsleg, vísindaleg og fræðileg tengsl við íbúa og stofnanir í norðurslóðalöndum, þar á meðal séu fjárfrek sameiginleg stórverkefni með Rússum.

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …