Home / Fréttir / Bloggari sprengdur – Kremlverjar í vanda með sökudólginn

Bloggari sprengdur – Kremlverjar í vanda með sökudólginn

Herbloggarinn Vladlen Tatarskij var sprengdur í loft upp 2. apríl 2023.

Sunnudaginn 2. apríl skömmu eftir klukkan 18.00 að staðartíma var rússneski herbloggarinn Vladlen Tatarskij sprengdur í loft upp í kaffihúsi í miðborg St. Pétursborgar. Hann flutti þar erindi yfir um 100 áheyrendum á opnum fundi um stríðið í Úkraínu.

Á eftirlitsmyndavél sést þegar Daria Trepova (26 ára) gengur að kaffihúsinu með pappakassa í fanginu. Þegar inn var komið kynnti hún sig sem listnemann Nöstju að sögn sjónarvottar við miðillinn Fontanka.

Hún hefði gert gullna gifsstyttu af herbloggaranum með hjálm á höfðinu.

„Styttan stendur hins vegar í fatahenginu af því að þeir eru hræddir um að þetta sé sprengja,“ segir sjónarvotturinn að konan hafi sagt.

Vladlen Tatarskij bað um að komið yrði með styttuna til sín upp á sviðið og lagði hana á borð við hliðina á sér.

Fimm mínútum síðar sprakk allt í loft upp. Alls særðust 32, þar af 10 alvarlega. Aðeins herbloggarinn týndi lífi

Hans rétta nafn var Maksim Fomin frá Makijivka sem er á hernumda svæði Rússa í Austur-Úkraínu.

Að eigin sögn ólst hann upp sem rússneskur ættjarðarvinur og brást að sögn miðilsins Mash illa við þegar notuð var úrkaínska í kennslustundum. Hann vann í námum að lokinni skólagöngu. Reyndi að stofna eigið fyrirtæki. Árið 2011 rændi hann banka til að greiða skuldir sínar. Þáttaskil urðu árið 2014 þegar fangelsið þar sem hann dvaldi var sprengt í loft upp í fyrsta stríðinu í Úkraínu.

Hann gerðist rússneskur ríkisborgari árið 2021.

Eftir að innrásin hófst í Úkraínu í fyrra sneri hann aftur til Austur-Úkraínu og þóttist vera stríðsfréttaritari undir dulnefninu Vladlen Tatarskij.

Meira en hálf milljón manna fylgdist með honum á samfélagsmiðlinum Telegram og hann hafði svo mikil áhrif á fylgjendur sína að honum var boðið í Kremlarkastala þegar fagnað var innlimun fjögurra héraða Úkraínu í Rússland.

„Drepið alla sem nauðsyn krefst, rænið alla sem nauðsyn krefst“ sagði hann á myndskeiði sem hann tók sjálfur í hátíðarsalnum í Kreml og setti á bloggið sitt.

Hann var einnig kjaftfor félagi í fylkingu Wagner-málaliðanna og mjög gagnrýninn á her Rússa og yfirmann hans, krafðist hann opinberlega afsagnar hans.

„Við erum neydd til að breyta öllu kerfinu,“ sagði hann á myndskeiði undir lok mars.

Jevgenij Prigozjin, eigandi og foringi Wagner-málaliðanna, átti kaffihúsið þar sem sprengjan sprakk. Þess vegna veltu menn því strax fyrir sér hvort um væri að ræða leik í valdataflinu milli Prigorzjins og yfirstjórnar hersins.

Grunur beindist þó fljótt að gullnu brjóstmyndinni sem Tatarskij fékk í hendur nokkrum mínútum fyrir dauða sinn og setti á borðið við hliðina á sér.

Sprengingin var beint til hægri við Tatarskij í 60 cm hæð segir einn rannsakenda morðsins við miðilinn RBK.

Um var að ræða fjarstýrða sprengju með um 100 grömm af sprengiefni. Hundar sérþjálfaðir í sprengjuleit hefðu ekki fundið neitt því að gifsið utan um sprengiefnið villti um fyrir þeim.

Daria Trepova er grunuð um að hafa farið með sprengjuna. 

Við svo búið hófst leitin að „listnemanum Nöstju“. Í ljós kom að þar var um að ræða 26 ára borgarstúlku, Dariu Trepovu. Henni hafði tekist að stinga af í hvítum Polo í öngþveitinu sem varð við sprenginguna.

Þremur klukkutímum síðar fóru hundruð lögreglumanna hús úr húsi í St. Pétursborg í leit að henni, hvarvetna þar sem talið var að hún gæti falið sig.

Sama kvöldið og stríðið hófst í fyrra var Daria Trepova handtekin í St. Pétursborg vegna þátttöku í mótmælaaðgerðum gegn innrásinni. Hún neitaði sök og slapp með skrekkinn en unnusti hennar, Dmitríj, var níu daga á bak við lás og slá.

Í rússneskum miðlum hafa birst myndir af þeim tveimur  gefa sigurmerki í lögreglubíl. Að öðru leyti er lítið vitað um pólitískan áhuga Dariu Trepovu.

Staðarmiðillinn Fontanka hefur grafið upp að faðir hennar er 45 ára vínkaupmaður og stjúpfaðir er 49 ára tónlistarmaður sem náð hefur nokkrum frama í jassheimi St. Pétursborgar.

Unnustinn, Dmitríj, er félagi í Frjálshyggjuflokknum. Hann er sagður hafa yfirgefið Rússland fyrir löngu. Aldrei virðist hafa hvarflað að Dariu að hverfa á brott þótt sótt hafi að henni mikil depurð yfir ástandinu:

„Ég leiði hugann að sjálfsmorði 20 til 150 sinnum hvern dag,“ sagði hún á Twitter í október 2022 að sögn rússneskra miðla ­– hún er ekki lengur á Twitter.

Hún flutti nýlega til Moskvu sneri aftur til St. Pétursborgar skömmu fyrir morðárásina.

Miðillinn Mash segir hana hafa sagt vinum sínum að úkraínskir blaðamenn hafi ráðið hana til að gera sér ýmsa smágreiða, til dæmis að dreifa nokkrum pökkum fyrir þá persónulega.

Hún var með flugmiða í vél til Uzbekistan að kvöldi sunnudagsins 2. apríl en notaði hann aldrei.

Rússneska lögreglan fann hana svo fyrir hádegi mánudaginn 3. apríl heima hjá kunningja unnusta hennar í St. Pétursborg.

Vegna framvindu málsins, það er þaulhugsuðu sprengjuárásarinnar og vandræðalegu flóttatilraunarinnar, velta rússneskir álitsgjafar nú fyrir sér hvort Daria Treopva hafi haft nokkra hugmynd um hlut sinn í málinu.

Án þess að átta sig á því hafi úkraínska leyniþjónustan fengið hana til starfa og síðan látið hana sigla sinn sjó.

„Svo virðist sem Daria hafi ekki haft neina flóttaáætlun. Hún vissi ekki að nota ætti sig til að drepa Vladlen Tatarskij,“ skrifar herbloggarinn Juríj Podoljaj fyrir 2,7 milljónir fylgjendur sína.

Mash segir að Daria hafi skrifað í svipuðum dúr í textaskilaboðum til vina sinna skömmu eftir árásina.

Fréttaskýrendur benda á að fyrir rússnesk yfirvöld sé auðveldasta úrræðið að láta eins og Daria hafi verið lokkuð í gildru. Hefði hún gert árásina að yfirlögðu ráði vekur það mikinn og óleystan vanda fyrir rússnesk yfirvöld og sýnir að andstæðingum stríðsins sé trúandi til alls gegn yfirvöldunum vegna þess.

Stjórnmálaskýrandinn Tatjana Stanovaja segir á Telegram að líklega verði allt gert af hálfu Kremlverja til að segja sem minnst um árásina:

„Við okkur blasir hefðbundin hryðjuverkaárás sem á vafalaust enn eftir að grafa undan stöðugleika í rússneskum stjórnmálum,“ skrifar Tatjana Stanovaja.

Úkraínustjórn segist ekki hafa neina vitneskju um sprengjuárásina.

Heimild: Berlingske.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …