
Laugardaginn 27. október ruddist Robert Bowers (46 ára) inn í samkunduhús gyðinga í Pittsburgh, í Bandaríkjunum. Hann var vopnaður þremur skammbyssum og hálf-sjálfvirkum árásar-riffli. Vopnin notaði hann til að skjóta á alla sem hann sá og varð 11 manns að bana. Hann sagði markmið sitt að útrýma gyðingum.
Atburðurinn vakti óhug um heim allan og hér birtist grein sem Martin Gak, sérfræðingur þýsku fréttastofunnar Deutsche Welle, skrifaði í tilefni af árásinni í Pittsburgh:
Aldrei hafa fleiri fallið í árás á gyðinga í sögu Bandaríkjanna en þeirri sem nú hefur verið gerð [í Pittsburgh] og vekur óhug um heim allan. Í færslu á samfélagsmiðil nokkrum klukkustundum fyrir skotárásina lýsti morðinginn áformum sínum fyrir öllum sem vildu kynna sér þau: „HIAS ætlar að flytja inn þá sem drepa fólk okkar … ég get ekki setið hjá og horft á slátrun þjóðar minnar. Sama hvernig það lítur út, ég fer inn.“
HIAS er skammstöfun á Hebrew Immigration Aid Society, hópi sem var stofnaður seint á 19. öld í New York til að aðstoða gyðinga við að losna undir ofsóknum í Rússlandi og Austur-Evrópu. Á síðari tímum hefur hópurinn einbeitt sér að því að fá gyðingasamfélög til að aðstoða þá sem koma til Bandaríkjanna án nauðsynlegra skilríkja.
Maðurinn sem ætlaði sér að „drepa alla gyðinga“ taldi HIAS greinilega fulltrúa gamalkunnra samsæriskenninga um „viðsjárverða“ alþjóðlega gyðinga. Í kenningunni felst að svikull gyðingur hafi áform um að ná undirtökum í heiminum með því að stjórna alþjóðlega fjármálakerfinu, ýta undir spákaupmennsku, stjórna fjölmiðlum og vinna skipulega að því að grafa undan trúarlegum gildum kristinna þjóða.
Áhrif þessara and-gyðinglega andróðurs sem hefur verið beitt til að réttlæta upprætingu gyðinga með ofsóknum, fangabúðum og fjöldamorðum hafa ekki minnkað. Í stað gamla auðmannsins Rothschilds kemur milljarðamæringurinn George Soros. Rótlausa alþjóðahyggjan sem Adolf Hitler fordæmdi og tengdi gyðingum er nú hnattvæðingin sem Steve Bannon og öfga-hægri samherjar hans úthrópa.
Í Bandaríkjunum er háværi öfgahópurinn sem segir frjálslynda gyðinga í fjölmiðlum, fjármálaheiminum og embættismannakerfinu valdamikla og hættulega ekki lengur úti á jaðrinum heldur lætur að sér kveða á meginvettvangi skoðanamyndunar. Þessar fordæmingar hafa nú getið af sér eitraðan ávöxt og það er auðvelt að finna þá sem bera hugsjónalega ábyrgð á þessari fyrirtlitlegu árás.
Evrópubúar verða að átta sig á svipuðum and-gyðinglegum merkjum heima hjá sér. Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur háð kosingabaráttu sem var greinilega and-gyðingleg, þar var Soros sagður tákngervingur samsæris hnattvæðingarsinna gegn Ungverjum. Alexander Gauland, leiðtogi Alternative für Deutschland, sem skipar sér lengst til hægri í þýskum stjórnmálum, hefur hellt úr skálum reiði sinnar yfir „hnattvæddu stéttinni“ sem á að hafa skipað sér sess í háskólum, fjölmiðlum, fjármálaheiminum og frjálsum félagasamtökum. Nigel Farage, breski stjórnmálamaðurinn gegn ESB, minnti á varnaðarorðs Henrys Fords á sínum tíma gegn alþjóðlegum gyðingum, þegar hann sagði á Fox News að George Soros væri „mesta hættan fyrir allan vestræna heiminn“.
Matteo Salvini, hægrisinnaði innanríkisráðherra Ítalíu, hefður ráðist á fjármálamann sem hann sakar um að vilja „fylla Ítalíu af farand-þrælum“ og grafa þannig undan fjárhag Ítalíu. Það er samhljómur milli þess sem byssumaðurinn í Pittsburgh sagði gegn HIAS og þess sem Farage, Salvini, Orbán og aðrir segja gegn Soros og neti frjálsra félagasamtaka hans um að þaðan streymi fjármagn til að kosta innrás farandfólks í Evrópu.
Þessir stjórnmálamenn færa sér í nyt rök og orðfæri sem rekja má til myrkustu þátta í pólitískri arfleifð okkar. Í Evrópu verða menn að hrista af sér slenið og sjálfumgleðina sem einkennir viðbrögðin við þessari árás. Á okkur Evrópumönnum hvílir einstök ábyrgð vegna þess sem blóðs sem eitt sinn rann um meginland okkar, við verðum að hindra slík grimmdarverk í Búdapest, Dresden og Varsjá. Nú er rétti tíminn til aðgerða.