Home / Fréttir / Blóðbað í Aleppo – pólitísk spenna magnast milli Rússa og Frakka

Blóðbað í Aleppo – pólitísk spenna magnast milli Rússa og Frakka

 

Vladimir Pútín
Vladimir Pútín

Fjölmiðlar um heim allan flytja stöðugt fleiri fréttir af loftárásum flugherja Sýrlands og Rússlands á saklausa borgara í Aleppo, borginni í Sýrlandi sem hefur að stórum hluta verið jöfnuð við jörðu. Bashar al-Assad Sýrlandsforseti er sakaður um stríðsglæpi vegna framgöngu liðsmanna hans og ásakanir af svipuðum toga eru hafðar í frammi gagnvart Vladimír Pútín Rússlandsforseta meðal annars af François Hollande Frakklandsforseta.

Spenna magnast í samskiptum Rússa og Frakka vegna átakanna í Sýrlandi. Ráðgert var að Vladimír Pútín yrði í París 19. október til að taka þátt í vígslu nýrrar kirkju rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar þar. Þegar François Hollande sendi þau boð að hann mundi aðeins ræða málefni Sýrlands og leiðir til að binda enda á átökin þar við Pútín í París hætti Rússlandsforseti við Frakklandsförina.

Miðvikudaginn 12. október tók Pútín þátt í alþjóðlegum fundi um efnahagsmál í Moskvu og notaði svar við spurningu frá frönskum fjárfesti til að hnýta í Frakka. Hann sagði frönsku ríkisstjórnina hafa reynt að spilla ástandinu í tengslum við Sýrland með því að leggja fram tillögu til ályktunar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þótt hún vissi að hún yrði aldrei samþykkt. Þetta hefði verið gert til að „kalla á beitingu neitunarvalds … kynda undir æsing gegn Rússum“ að mati Pútíns.

Tillaga Frakka, sagði Rússlandsforseti, hafði þann eina tilgang að geðjast Bandaríkjamönnum og flutningur hennar hefði ekki sæmt ríki sem vildi „láta taka sig alvarlega, segist fylgja sjálfstæðri stefnu og líta beri á það sem stórveldi“.

Að kvöldi miðvikudags 12. október var rætt við Pútín í fréttatíma frönsku sjónvarpsstöðvarinnar TF1. Hann sagði Rússa ætla að elta uppi „hryðjuverkamenn“ jafnvel þótt þeir feldu sig meðal almennra borgara.

„Við getum ekki leyft hryðjuverkamönnum að nota almenning sem skjöld og kúga allan heiminn,“ sagði hann og líta yrði á mannfall meðal almennra borgara sem „sorglega afleiðingu stríðs“.

Þegar minnt var á ásakanir um að með árásum sínum á íbúðahverfi almennra borgara gerðust Rússar sekir um stríðsglæpi sagði Pútín: „Þetta eru pólitískar fullyrðingar sem hafa ekki mikið gildi og taka ekkert mið af því sem gerist í Sýrlandi. Ég hef djúpa sannfæringu fyrir því að það séu vestrænir samstarfsaðilar okkar, auðvitað fyrst og fremst Bandaríkjamenn, sem bera ábyrgð á stöðu mála.“

Rússar saka Bandaríkjamenn um að styðja með leynd vígamenn í tengslum við al-Kaída í þeim tilgangi að fella Bashar al-Assad Sýrlandsforseta. Bandaríkjamenn hafna þessum ásökunum.

 

Heimildir: Le Figaro, BBC

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …