Home / Fréttir / Blinken segir atburðarásinni í æðstu stjórn Rússlands ólokið

Blinken segir atburðarásinni í æðstu stjórn Rússlands ólokið

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði sunnudaginn 25. júní að Bandaríkjastjórn teldi að enn kynni valdi Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta að verða ógnað. Hann sagði atburði undanfarna daga sýna „raunverulega bresti“ í rússneska stjórnkerfinu.

„Þessari atburðarás er ólokið,“ sagði Blinken í þættinum Face the Nation á CBS-sjónvarpsstöðinni. „Við höfum ekki séð lokaþáttinn. Við fylgjumst mjög náið með því sem gerist.“

Ráðamenn um heim allan fylgdust undrandi með framvindu mála í Rússlandi á föstudag og laugardag. Að morgni sunnudagsins virtist ógnin við stjórn Pútíns hafa minnkað en enginn var sannfærður um að endapunkti væri náð eða að Pútín hefði tryggt stöðu sína til fulls.

Jevgeníj Prígósíjn og Wagner-málaliðarnir, einkaher hans, náðu suðurherstjórn Rússlands í borginni Rostov við Don á sitt vald föstudaginn 23. júní. Laugardaginn 24. júní sendi Prígósjín hermenn sína til Moskvu þar sem komið var upp vegatálmunum og herlið bjó sig undir átök. Undir kvöld á laugardeginum var tilkynnt að Alexander Lúkasjenkó, forseti Belarús, hefði með samþykki Pútíns fengið Prígósjín til að stöðva herafla sinn í um 200 km fjarlægð frá Moskvu og senda hann til stöðva sinna. Prígósjín og liðsmenn hans voru kvaddir með stuðningshrópum við brottförina frá Rostov.

Dmitríj Peskov, talsmaður Pútíns og Kremlverja, sagði að Prígósjín og málaliðum hans yrði ekki refsað en Prígósjín færi í útlegð til Belarús.

Í þættinum Meet the Press  á NBC-sjónvarpsstöðinni sunnudaginn 25. júní sagði Blinken að þessir atburðir hlytu að gagnast Úkraínumönnum í átökunum við Rússa. Umrótið sem Prígósjín hefði valdið væri aðeins „nýjasti kaflinn í mistakabókinni sem Pútin [hefði] skrifað um sjálfan sig og Rússland,“ sagði bandaríski utanríkisráðherrann.

„Fyrir sextán mánuðum voru rússneskir hermenn við gættina á Kyív í Úkraínu, þeir töldu að það tæki þá aðeins nokkra daga að leggja undir sig borgina, þeir héldu að þeir myndu afmá Úkraínu sem sjálfstætt ríki af landakortinu,“ sagði Blinken. „Nú um þessa helgi hafa þeir orðið að grípa til varna fyrir Moskvu, höfuðborg Rússlands, gegn málaliðum sem eru sköpunarverk Pútíns.

Í allri þessari óheillaþróun hefur Prígósjín sjálfur spurt grundvallarspurninga um sjálfar forsendurnar fyrir því að Rússar réðust yfirleitt á Úkraínumenn.“

Bandaríski hershöfðinginn David Petraeus, fyrrverandi forstjóri leyniþjónustunnar, CIA, taldi að atburðir helgarinnar sýndu veika stöðu Prígósjíns. Hann sagði sunnudaginn 25. júní í þættinum State of the Union á CNN-sjónvarpsstöðinni:

„Prígósjín fór greinilega á taugum. Hann var … í um það bil tveggja tíma akstursfjarlægð frá Moskvu þar sem gripið hafði verið til varnaraðgerða. Þótt ýmsir hafi fagnað uppreisnarmönnunum á leið þeirra virðist uppreisnin ekki hafa notið þess stuðnings sem hann batt vonir við að fá.“

Petraeus segir að Prígósjín þurfi ekki síður en Pútín að gæta vel að hverju skrefi:

„Hann ætti að fara mjög varlega nálægt opnum gluggum á nýja staðnum sínum í Belarús, þangað sem hann er að fara.“

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …