
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gagnrýndi Vladimir Pútin Rússlandsforseta og innrásina í Úkraínu harðlega í ræðu sem hann flutti í ráðhúsi Helsinki föstudaginn 2. júní.
Blinken hefur verið í Svíþjóð, Noregi og nú Finnlandi í vikunni. Hann heimsótti sænska herstöð nyrst í Svíþjóð og sat óformlegan utanríkisráðherrafund NATO-ríkjanna í Osló 31. maí og 1. júní.
Blinken sagði að Pútin hefði gert „strategísk mistök“ með því að ráðast inn í Úkraínu. Bandaríkjastjórn ynni nú að því með ráðamönnum Úkraínu og annarra landa að finna friðsamlega leið til að binda enda á stríðið.
„Við munum styðja viðleitni – komi hún frá Brasilíu, Kína eða öðru landi – sé hún til þess fallin að koma á réttlátum og varanlegum friði,“ sagði Blinken.
Í lok ræðu sinnar bar Blinken lof á þrautseigju (sisu) Finna við dynjandi lófatak áheyrenda.
Fyrr á föstudeginum átti Blinken fund með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finna. Rituðu ráðherrarnir undir yfirlýsingu um samstarf Finna og Bandaríkjamanna um samvinnu um 6G farkerfið, arftaka 5G kerfisins.
Haavisto sagði að tvíhliða samskipti Finna og Bandaríkjamanna væru sterkari en þau hefðu nokkru sinni verið. Samskiptin á sviði öryggis- og varnarmála ykjust stöðugt og einnig varðandi nýja tækni. Með aðild Finnlands að NATO hefðu opnast nýjar samstarfsleiðir fyrir þjóðirnar.
Blinken færði Finnum og finnskum ráðamönnum innilegar þakkir fyrir hve vel hefði verið á haldið á málum við að skipa Finnlandi í raðir NATO-ríkjanna. Nú væri það sameiginlegt verkefni að tryggja Svíum setu í NATO fyrir fund ríkisoddvita bandalagsþjóðanna í Vilnius í júlí. Ólögleg innrás Rússa í Úkraínu og stríðið sem staðið hefði í meira en ár hefði skaðað forsendur fyrir öryggi í Evrópu og heiminum öllum.
Við brottförina frá Finnlandi lauk fimm daga heimsókn bandaríska utanríkisráðherrans til Norðurlandanna þriggja.