Home / Fréttir / Blair segir að þingið felli Brexit-tillögu May

Blair segir að þingið felli Brexit-tillögu May

 

Frá Brexit-fundinum í Chequers.
Frá Brexit-fundinum í Chequers.

Tony Blair, fyrrv. forsætisráðherra Breta, segir að Brexit-tillaga bresku ríkisstjórnarinnar verði felld í breska þinginu. Þetta kemur fram í einkasamtali við Blair á sjónvarpsstöðinni Euronews mánudaginn 3. september. Hann segir að tillagan sem Theresa May forsætisráðherra fékk samþykkta á ríkisstjórnarfundi í Chequers í júlí sé illa úr garði gerð og „gleðji engan“.

Chequers er opinbert sveitasetur breska forsætisráðherrans og boðaði May ráðherra sína til dagsfundar þar í júlí til að berja saman niðurstöðu um úrsögn Breta úr ESB sem tæki mið af kröfum Brusselmanna og þykir mörgum talsmönnum úrsagnar að í tillögunni felist alltof mikil eftirgjöf.

Tillagan felur í sér að „sama regluverk gildi um allar vörur“ milli Breta og ESB, þannig að Bretar felli lög og reglur sínar að ESB-kröfum.

Þar er einnig að finna ákvæði um að ESB-dómstóllinn verði einskonar gerðardómur komi til ágreinings milli Breta og ESB um framkvæmd samkomulagsins. Þá verði greitt fyrir afgreiðslu tolla á þann veg að bresk yfirvöld innheimti tolla fyrir hönd ESB, þar með verði komið í veg fyrir lokun landamæra með tollhliðum.

Tveir breskir lykilráðherrar báðust lausnar í mótmælaskyni eftir að tillaga May var samþykkt, Boris Johnson utanríkisráðherra og David Davis, Brexit-ráðherra.

Blair telur May „algjörlega á rangri leið, ég skil hvers vegna hún reynir að gera þetta en ég held að þetta sé dæmt til að mistakast“.

May og öðrum kunni að sýnast hún hafa fundið málamiðlun, segir Blair, en þetta sé málamiðlun sem sameini það sem sé verst hjá hvorum aðila um sig og gleðji þess vegna engan. Þess vegna hafni þingið henni að lokum.

Talið er að Chequers-tillagan verði lögð fyrir breska þingið í október. Íhaldsflokkurinn er klofinn í afstöðu sinni og segist David Davis ætla að greiða atkvæði gegn tillögunni.

Aðalsamningamaður ESB, Michel Barnier, fagnar ekki heldur tillögu May og segir að hann sé „mjög á móti“ því sem May boði um viðskipti í tillögu sinni.

Í samtali við Frankfurter Allegemeine Zeitung sunnudaginn 2. september sagði Barnier að það yrði ólöglegt að framkvæma sumar tillagnanna og það mundi „binda enda á innri markaðinn og evrópska verkefnið [samrunaþróunina í Evrópu]“.

Stefnt er að því að úrsagnar-samningur milli Breta og ESB liggi fyrir í október eða í síðasta lagi í nóvember.

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …