
Björgunarþyrlu á vegum írsku strandgæslunnar hefur verið leitað síðan þriðjudaginn 14. mars. Konu úr áhöfn hennar var bjargað úr hafinu undan vesturströnd Írlands en þriggja karla er saknað. Þyrlan af gerðinni Sikorsky S-92 hafði nýlega tekið eldsneyti við vita hjá Blacksod í Mayo-héraði á Írlandi þegar samband við hana slitnaði.
Michael D Higgins, forseti Írlands, hefur sagt þetta „dimman dag“ í sögu írsku strandgæslunnar.
Áhafnir á þyrlum írsku strandgæslunnar koma frá fyrirtækinu CHC Helicopters. Þyrlan sem er saknað ber heitið Rescue 116 og hefur aðsetur í Dublin. Þaðan var hún send þvert yfir Írland til að vera þyrlu frá Siglo á vesturströnd landsins til aðstoðar þegar áhöfn hennar sótti slasaðan sjómann í 240 km vestur af Blacksod.
Samband við Rescue 116 slitnaði skömmu eftir 12.45 þegar flugmaðurinn staðfesti að hann væri að lenda þyrlunni við Blacksod til að hlaða hana eldsneyti. Ekkert neyðarkall barst frá þyrlunni og ekki kviknaði á neinum neyðarsendum.
Þyrlan frá Sligo sá brak í hafinu þegar hún kom til baka úr vel heppnuðum björgunarleiðangri sínum. Farið var með slasaða sjómanninn í land og síðan haldið til leitar og sá þá áhöfnin þá úr áhöfn Rescue 116 sem síðan var bjargað um borð í björgunarbát, Döru Fitzpatrick flugmann. Hún lést á sjúkrahúsi.
Þyrlur, eftirlitsflugvélar, strandgæsluskip og fiskiskip hafa leitað í nágrenni við Blacksod. Þá hafa kafarar verið sendir á vettvang til að leita á um 50 til 60 m dýpi við ströndina.
Nokkuð af braki hefur náðst í land og vinnur rannsóknarnefnd flugslysa að því að skoða það í von um að finna svörtu boxin – það er skrár um ferð þyrlunnar og upptökur af samtölum í stjórnklefa hennar.
Í The Irish Times miðvikudaginn 15. mars er haft eftir sérfræðingum í flugmálum að ástand gírkassans og búnaðar í tengslum við hann skipti höfuðmáli í rannsókninni á orsökum slyssins. Þetta er versta slys í flugsögu Írlands síðan fjórir hermenn fórust þegar Dauphin-þyrla fórst í júlí 1999 á heimleið úr björgunarleiðangri.
Í janúar gaf Sikorsky fyrirmæli um skoðun á öllum þyrlum af gerðinni S-92 um heim allan eftir að slíkri vél hlekktist á 28. desember 2016 við lendingu á olíupall í Norðursjó. Talið var að það tæki aðeins 24 til 48 tíma að skoða hverja vél. Írska strandgæslan á fimm S-92 vélar í flota sínum.
CHC er fyrirtæki sem starfar um heim allan. Það var stofnað fyrir tæpum 70 árum í British Columbia í Kanada.