
Dóttir hugmyndafræðings rússneskra þjóðernissinna sem oft er kallaður „heili Pútins“ var drepin í bílsprengju í útjaðri Moskvu aðfaraótt sunnudags 21. ágúst. Hún hét Daria Dugina, 30 ára. Segir rannsóknardeild Moskvu-lögreglunnar að sprengju hefði verið komið fyrir í jeppa sem hún ók.
Faðir Dariu er Alexander Dugin, alkunnur málsvari kenningar sem þekkt er undir heitinu Rússnesk veröld og snýst um að sameina þjóðir vinveittar Rússum um heim allan undir fána Kremlar. Dugin er ákafur stuðningsmaður innrásarinnar í Úkraínu.
Vitnað er til hugmyndafræðinnar að baki Rússneskri veröld til að réttlæta ákvörðun Vladimirs Pútins Rússlandsforseta um innrásina í Úkraínu í febrúar 2022.
Daria Dugina kynnti þessi viðhorf á opinberum vettvangi og var álitsgjafi á sjónvarpsstöð þjóðernissinna, Tsargrad.
Sunnudaginn 21. ágúst notaði þulur sjónvarpsstöðvarinnar gælunafn fyrrverandi samstarfskonu sinnar þegar hann sagði: „Dasha var, eins og faðir hennar, jafnan í fremstu röð í uppgjöri við Vestrið.“
Dugina var á heimleið frá menningarviðburði sem hún hafði sótt með föður sínum. Hún ók bíl hans en sjálfur ákvað Dugin á síðustu stundu að aka í öðrum bíl á eftir dóttur sinni. Varð hann vitni að sprengingunni sem talið er að hafi verið ætluð honum.
Denis Pushilin, forseti Alþýðulýðveldisins Donetsk í Donbas-héraði í Úkraínu, sakaði „hryðjuverkamenn stjórnar Úkraínu“ um að hafa reynt að drepa Alexander Dugin.
Mjikhailo Podoljak, ráðgjafi Zelenskíjs Úkraínuforseta, sagði að auðvitað hefðu Úkraínumenn ekki átt neinn hlut að ódæðinu: „Við erum ekki glæparíki eins og Rússneska sambandsríkið og því síður hryðjuverkaríki,“ sagði hann.
