Home / Fréttir / Biden vill vita um uppruna COVID-19 í Wuhan

Biden vill vita um uppruna COVID-19 í Wuhan

Veirufræðistofnunin í Wuhan í Kína.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sendi leyniþjónustustofnunum Bandaríkjanna tilmæli miðvikudaginn 26. maí um að herða á rannsóknum á uppruna kórónuveirunnar og afhenda sér skýrslu um málið innan 90 daga.

Ástæðan fyrir tilmælum forsetans eru vaxandi grunsemdir um að hugsanlega megi rekja COVID-19-faraldurinn til leka úr tilraunastofu í Wuhan í Kína.

Í bandaríska blaðinu The Wall Street Journal (WSJ) sagði sunnudaginn 23. maí að í bandarískum trúnaðargögnum mætti finna upplýsingar um að þrír starfsmenn Veirufræðistofnunar Wuhan í Kína hefðu veikst svo illa í nóvember 2019 að þeir hefðu verið lagðir inn á sjúkrahús.

Biden benti á að trúnaðarmenn Bandaríkjastjórnar hefðu staðnæmst við tvo líklega kosti eftir athuganir sínar: (1) menn hefðu sýkst af dýri; (2) slys við rannsóknir.

Bent er á í leiðara WSJ fimmtudaginn 27. maí að tilmæli forsetans stangist á við fyrri ákvörðun hans um að þetta mál yrði ekki rannsakað frekar á vegum bandaríska utanríkisráðuneytisins. Honum hafi snúist hugur vegna sífellt fleiri vísbendinga um að veira kunni að hafa sloppið út frá Wuhan-stofnuninni. Segir blaðið hneyksli að svo langan tíma hafi tekið að hefja rannsókn á þessu þar sem vísbendingar um grunsamlegt athæfi í Wuhan hafi legið fyrir frá upphafi.

Minnir WSJ á að alþjóðlegir fjölmiðlar hafi strax í janúar sagt fréttir af því að veira breyddist út í kínversku borginni Wuhan. Tom Cotton, öldungadeildarþingmaður í Bandaríkjunum, sagði 30. janúar 2020: „Kórónuveiran kann að leiða til heimsfaraldurs. Ég mundi beina athygli að því að í Wuhan er eina ofur-rannsóknarstofa Kína með fjórða stigs lífvernd og þar er unnið með banvænustu sýkla í heimi og, já, þar á meðal kórónuveiru.“

Botao Xiao við Tækniháskóla Suður-Kína birti 6. febrúar 2020 grein á netinu þar sem hann sagði að veiran ætti „líklega uppruna í rannsóknarstofu í Wuhan“. Kínversk stjórnvöld leggja sig í líma við að stjórna öllum rannsóknum og umræðum um uppruna COVID-19-faraldursins – Botao Xiao afturkallaði texta sinn.

Kínverski kommúnistaflokkurinn sneri síðan vörn í sókn og sendiherra Kína í Bandaríkjunum sagði „algjöra sturlun“ að halda því fram að veiran hefði lekið út af rannsóknarstofu. Slíkt tal kynni að „ýta undir kynþátta- og útlendingahatur“. Tom Cotton átti ekki upp á pallborðið hjá fjölmiðlamönnum. Hann tuðar um samsæriskenningu sem þegar hefur verið hafnað sagði The Washington Post og í The New York Times var hann gagnrýndur fyrir að endurtaka jaðarskoðun um uppruna veirunnar.

Þá segir í leiðara WSJ að „háklerkar“ heilbrigðiskerfisins hafi tekið af skarið um hvað mætti segja um málið. Í læknaritinu Lancet birtist 19. febrúar 2020 yfirlýsing vísindamanna sem fordæmdu „samsæriskenningar í þá veru að rekja mætti COVID-19 til annars en náttúrulegra aðstæðna“. Þrátt fyrir lágvær mótmæli sumra fræðimanna var yfirlýsingunni flaggað og hún sögð staðfesta að rannsóknarstofu-kenningin hefði endanlega verið „jörðuð“.

WSJ bendir á að dýrafræðingurinn Peter Daszak hafi staðið að baki Lancet-yfirlýsingunni en hann hafi veitt fé til rannsókna í Veirufræðistofnuninni í Wuhan úr sjálfseignarstofnun sinni sem ekki sé rekin í hagnaðarskyni. Hann hafi greinilega hagsmuni af því að sem minnst sé gert úr kenningunni um rannsóknarstofu-lekann, það geti skaðað fjárfestingar til frambúðar. Daszak var í rannsóknarhópnum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) sendi til Wuhan fyrr á þessu ári. Hann heldur enn fast í þá skoðun að kenningin um stofu-lekann sé fráleit – þrír af þeim sem rituðu undir Lancet-yfirlýsinguna hafa hins vegar sagt að nú telji þeir rétt að athuga réttmæti leka-kenningarinnar betur.

Dr. Anthony S. Fauci, forstjóri U.S. National Institute of Allergy and Infectious Diseases ­– Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna – og höfuðráðgjafi Bandaríkjaforseta vegna COVID-19-faraldursins hafnaði Wuhan-stofu-kenningunni í samtali við National Geographic í maí 2020. Bandaríska ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunin hafði hins vegar lagt fé til stofnunar Daszaks sem rann síðan til veirurannsókna í Wuhan-stofnuninni. Bandaríska fénu var að vísu ekki varið til rannsókna sem hugsanlega gátu af sér heimsfaraldurinn en að starfsemin í Wuhan hafi verið styrkt af Bandaríkjamönnum skapar þeim vanda.

Forystumenn úr röðum repúblikana eins og Mike Pompeo og Donald Trump hölluðust með tímanum að leka-kenningunni en þá voru þeir sakaðir um að reyna að draga athygli frá vandræðagangi Trump-stjórnarinnar vegna faraldursins. Neikvæð afstaða dr. Faucis í maí 2020 varð einnig til þess að fjölmiðlar fluttu fréttir um ágreining milli forsetans og vísindalegra ráðgjafa hans. CNN sagði: „Anthony Fauci var rétt í þessu að kollvarpa kenningu Donalds Trumps um uppruna kórónuveirunnar.

Þeir sem aðhylltust ráðandi lýsingu á því sem átti að hafa gerst í Wuhan lentu loks í blindgötu: Enginn hefur fundið neina náttúrulega skýringu á uppruna COVID-19 og nýjar upplýsingar leiða til þess að óverjandi er að neita því alfarið að ekki kunni að vera um stofu-leka að ræða. Merkileg vísbending í þá veru kom frá bandaríska utanríkisráðuneytinu í stjórnartíð Trumps í janúar 2021.

„Bandaríkjastjórn hefur ástæðu til að álykta að nokkrir rannsóknarmenn innan Wuhan-veirufræðistofnunarinnar hafi veikst haustið 2019 áður en fyrsta tilvik farsóttarinnar var greint, þeir hafi verið með einkenni sem tengist bæði COVID-19 og árstíðabundnum pestum,“ segir í skjali ráðuneytisins. Tekið er fram að Wuhan-veirufræðistofnunin starfi í tengslum við kínverska herinn og hafi hvorki sýnt gagnsæi né verið samkvæm sjálfri sér þegar spurt var um rannsóknir á hennar vegum á veirum sem svipar til COVID-19. Biden-stjórnin féllst svo opinberlega í stórum dráttum á þessa niðurstöðu og nú í vikunni viðurkenndi meira að segja dr. Fauci að stofu-leki kynni að vera í myndinni.

Ferð rannsakenda á vegum WHO til Wuhan fyrr á árinu 2021 skilaði litlum, nýjum upplýsingum en fram kom að „mjög ólíklegt“ væri að lekið hefði úr Wuhan-veirufræðistofnuninni. Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bidens, gagnrýndi rannsóknina. Meira að segja sjálfur WHO-forstjórinn, Tedros Ghebreyesus, óskaði eftir „frekari rannsókn“ á því hvort veiran hefði borist úr rannsóknarstofu. Nú í maí birti hópur vísindamanna bréf í tímaritinu Science þar sem sagði að enn væri ekki úr því skorið hvort veiran hefði borist úr rannsóknarstofu eða frá dýri í mann.

WSJ segir að athugun á þessu hefði átt að hefjast fyrir ári en hlutdrægni fjölmiðla hafi komið í veg fyrir heiðarlega umræðu. Margir „sérfræðingar“ hefðu kosið pólitíska leiki og orðið hluti af hjarðhugsun í stað þess að láta vísindin ráða för.

Blaðið segir að þetta snúist ekki aðeins um að skora einhver stig. Að komast að raun um uppruna Wuhan-veirunnar sé lífsnauðsynlegt til að átta sig á leiðum til að útiloka næsta heimsfaraldur; á því hvernig eigi að standa betur að rekstri hættulegra rannsóknastofa; og hvernig eigi að skapa mannkyni vernd. Fyrir heimsbyggðina alla sé nauðsynlegt að fram fari heiðarleg og opin rannsókn.

 

Skoða einnig

Úkraínumenn hafa þegar unnið sjálfstæðisstríðið

Riho Terras er eistlenskur stjórnmálamaður sem áður var hershöfðingi og æðsti yfirmaður hers Eistlands. Hann …