Home / Fréttir / Biden velur fólkið í stjórn sína

Biden velur fólkið í stjórn sína

Joe Biden og Antony Blinken
Joe Biden og Antony Blinken

Joe Biden. verðandi Bandaríkjaforseti, hefur kynnt til sögunnar þá sem gegna munu lykilembættum á sviði öryggis- og utanríkismála eftir stjórnarskiptin 20. janúar 2021.

John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra, verður í forystu á sviði loftslagsmála.

Alejandro Mayorkas verður ráðherra heimavarna. Antony Blinken verður utanríkisráðherra. Linda Thomas-Greenfield verður fastafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum en hún hefur starfað lengi í utanríkisþjónustunni.

Blinken (58 ára) var vara-utanríkisráðherra og vara-þjóðaröryggisráðgjafi í forsetatíð Baracks Obama. Blinken hafði þá náið samband við Biden. Öldungadeildin verður að samþykkja skipun Blinkens. Hlutverk hans verður að endurvekja margvísleg tengsl við alþjóðastofnanir og bandamenn Bandaríkjanna sem hafa dofnað í forsetatíð Donalds Trumps.

Líklegt er að Blinken falli öldungadeildarþingmönnum betur í geð en Susan Rice og Chris Coons öldudeildarþingmaður sem einnig komu til álita í lokavali Bidens.

Rice hefur lengi verið þyrnir í augum repúblikana, til dæmis vegna yfirlýsinga sem hún gaf árið 2012 þegar ráðist var á bandarísku ræðisskrifstofuna í Benghazi í Líbíu.

Coons hefur setið í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar en býr ekki að sömu reynslu og Blinken við daglega stjórn utanríkismálanna.

Líklegt er talið að Michèle Flournoy verði varnarmálaráðherra en hún hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum í því ráðuneyti. Jake Sullivan er nefndur sem hugsanlegur þjóðaröryggisráðgjafi en hann hefur lengi verið ráðgjafi Bidens og Hillary Clinton.

Undir forystu Trumps var gerð þung atlaga að utanríkisráðuneytinu til dæmis með tillögum um meira en 30% niðurskurð á fjárveitingum til þess. Það voru þingmenn sem komu í veg fyrir að þessi aðför að ráðuneytinu heppnaðist. Þrengingar ráðuneytisins hafa leitt til þess að færri en ella hafa sóst eftir störfum þar auk þess sem reyndir starfsmenn hafa sagt skilið við ráðuneytið vegna minni líkum á frama innan þess en áður var.

Blinken stundaði nám í Harvard-háskóla og Columbia-lagaskólanum. Hann hefur lengi komið að utanríkismálum á vegum demókrata. Blinken hefur ásamt fjölda annarra fyrrverandi forystumanna á sviði þjóðaröryggismála hvatt til þess að blásið verði nýju lífi í utanríkisþjónustu Bandaríkjanna og bandarískt frumkvæði á alþjóðavettvangi. Hann sagði við AP-fréttastofuna í september:

„Lýðræði er á undanhaldi víða í heiminum og því miður einnig hér á heimavelli af því að afstaða forsetans til lýðræðislegra stofnana, gilda og einstaklinga einkennist af þröngsýni. Vinir okkar vita að Joe Biden veit hverjir þeir eru. Sömu sögu er að segja um andstæðinga okkar. Umskiptin verður unnt að greina á fyrsta degi.“

Blinken var í starfsliði þjóðaröryggisráðsins í forsetatíð Clintons áður en hann varð starfsmannastjóri utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar þegar Biden var þar í formennsku. Á fyrstu árum Obama sneri hann aftur til þjóðaröryggisráðsins og varð síðan öryggisráðgjafi Bidens sem þá var varaforseti. Þaðan fór hann í utanríkisráðuneytið þar sem hann varð vara-utanríkisráðherra Johns Kerrys.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …